Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Ekkert kaffiboð í Garði - ómannúð og óvinsamleg afstaða meirihlutans?
Föstudagur 8. september 2006 kl. 11:12

Ekkert kaffiboð í Garði - ómannúð og óvinsamleg afstaða meirihlutans?

Nú er það ljóst að ekkert kaffiboð verður haldið í Garði af núverandi meirihluta til að gefa Garðbúum og fráfarandi meirihluta tækifæri til að kveðja Sigurð Jónsson og eiginkonu hans. F-listinn, sem skipar nú minnihlutann í Garði, lagði það til við bæjarstjórn í vikunni að núverandi meirihluti samþykkti að bjóða Garðbúum til kaffisamsætis til að kveðja fyrrverandi bæjarstjóra, sem nú er að flytja úr Garðinum eftir 16 ára starf sem sveitarstjóri og svo bæjarstjóri. Tillaga þess efnis var hafnað af núverandi meirihluta.

Vegna höfnunar núverandi meirihluta á kaffiboði bókaði F-listinn:
„Við í F-listanum lýsum yfir furðu okkar yfir ómannúð og óvinsamlegri afstöðu meirihlutans til fráfarandi sveitarstjóra og síðar fyrsta bæjarstjóra Garðsins Sigurðar Jónssonar, eftir 16 ára samfellt og farsælt starf í þjónustu sveitarfélagsins og íbúa þess, að geta ekki samþykkt að bjóða Garðbúum til kaffisamsætis og gefa þeim og öðrum tækifæri til að kveðja þau hjón Sigurð og Ástu, sem eru að flytja úr Garðinum.

Við fulltrúar F-listans viljum ítreka þakkir okkar til þeirra Sigurðar og Ástu fyrir góð störf í þjónustu Garðsins og íbúa hans og óskum þeim velfarnaðar á nýjum stað og í nýjum störfum.
F-listinn“.

Í framhaldi af bókun F-listans bókaði N-listinn, sem fer með meirihluta í Garði:
„N-lista finnst óviðeigandi að nýr meirihluti í bæjarstjórn standi að því að bjóða íbúum til kaffisamsætis til að kveðja bæjarstjóra sem var ráðinn af fyrrverandi meirihluta, starfaði fyrir hann og tók einnig virkan þátt í kosningabaráttu F-lista.  N-listinn ítrekar óskir sínar um að Sigurði og Ástu vegni vel á nýjum stað og í nýjum störfum.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024