Ekkert ferðaveður á morgun
„Í fyrramálið hvessir mjög af suðaustri og hlýnar hratt, en engu að síður verður úrkoman snjókoma eða slydda framan af degi en síðar rigning. Suðaustan stormur eða rok víða um landi seinnipartinn og ekkert ferðaveður,“ segir í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands á vef veðurstofunnar.
Í veðurhorfum fyrir allt landið segir: Suðaustlæg átt, 8-15 en gengur í 13-20 m/s norðaustantil í dag. Lengst af 3-10 m/s suðvestan- og vestanlands. Víða él, en snjókoma eða slydda austan Öræfa. Frost 0 til 5 stig, en hiti kringum frostmark við sjóinn um landið sunnanvert.
Vaxandi SA-átt í fyrramálið, fyrst SV-til, víða 20-28 m/s síðdegis. Snjókoma eða slydda og síðar rigning og talsverð eða mikil rigning SA-til. Hlýnar í veðri. Snýst í minnkandi sunnan- og suðvestanátt og minnkandi úrkoma annað kvöld, fyrst SV-til. Hiti 2 til 7 stig.
Faxaflói
Suðlæg átt, 5-10, él og hiti kringum frostmark. Þykknar upp með vaxandi suðaustanátt í fyrramálið, slydda og síðan rigning. Suðaustan 20-28 m/s síðdegis, hvassast sunnantil. Snýst í sunnan 13-20 með skúrum eða éljum annað kvöld. Hiti 0 til 6 stig.