Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekkert banaslys á Reykjanesbraut frá tvöföldun - fimmtán ár frá þúsund manna borgarafundi
Þriðjudagur 12. janúar 2016 kl. 15:30

Ekkert banaslys á Reykjanesbraut frá tvöföldun - fimmtán ár frá þúsund manna borgarafundi

Í gær voru 15 ár frá borgarafundi sem haldinn var í Stapa í Njarðvík af Áhugahópi um tvöfalda Reykjanesbraut en hann var stofnaður til að þrýsta á framkvæmdir við tvöföldun brautarinnar. Um þúsund manns mættu á borgarafundinn en fyrir fundinn höfðu einnig safnast 9000 undirskriftir með hvatningu til stjórnvalda um að hefjast tafarlaust við framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur. Hópur manna hafði fyrir fundinn lokað Reykjanesbrautinni til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda en í mörg ár hafði tvöföldun brautarinnar verið í umræðunni, án þess að nokkuð gerðist.



„Nú eru fimmtán ár síðan Áhugahópurinn tók sín fyrstu skref til að ýta á eftir framkvæmdum til að fækka banaslysum á brautinni. Árin áður höfum við misst 4-5 manns árlega á aðeins 24 kílómetra kafla en nú hafa liðið 12 ár án þess að nokkur hafi látist á þessum sama kafla. Ótrúlegur árangur en um leið ótrúlegt að aðrar stofnæðar út frá Reykjavík séu ekki enn 2+2 alla leið, skrifaði Steinþór Jónsson, hótelstjóri í Keflavík á Facebook-síðu sínu en hann var formaður Áhugahópsins. 


Svona stórt verkefni tekur langan tíma og ekki tókst að koma í veg fyrir fleiri banaslys á brautinni. Þannig lést kona í umferðarslysi nærri Kúagerði þann 1. desember 2001. Flest slysin urðu á árinu 2003 þegar sex einstaklingar létust í umferðarslysum á Reykjanesbraut í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum.
 Þessi þrýstingur heimamanna á Suðurnesjum hafði áhrif því undirbúningsvinna að tvöföldun hófst með fundi Vegagerðarinnar og sveitarstjórnarmönnum. Í framhaldinu eða í febrúar 2002 var fyrsti hluti brautarinnar um 12 km. boðinn út. Kostnaður var 1,1 milljarður. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sem hafði átt afar gott samstarf við Áhugahópinn og Suðurnesjamenn vígði svo þennan fyrsta tvöfalda áfanga 29. júlí 2004. Umræddur kafli var frá bæjarmörkum Hafnarfjarðar að þremur kílómetrum austan við Vogaafleggjara.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í febrúar 2005 var svo tilkynnt um að farið yrði í tvöföldun næsta áfanga sem náði frá Fitjum að Strandarheiði. Á miðju ári 2005 birtist frétt um að ekkert banaslys hafi orðið á tvöfaldri Reykjanesbraut undanfarna 14 mánuði en á sama tímabili þar á undan hafi 7 einstaklingar látist í jafnmörgum slysum. Kristján Möller, þáverandi samgönguráðherra fékk svo heiðurinn af því að klippa á næsta borða þann 19. október 2008, þegar annar áfangi var opnaður. Frá þessum tíma hefur umferð um Reykjanesbraut aukist jafnt og þétt samhliða mikilli aukningu í komu ferðamanna til Íslands.

Frá borgarafundinum í Stapa í ársbyrjun 2000.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tók fyrstu skóflustungu í Kúagerði árið 2003.

Eftir víglsu annars áfanga í tvöföldunar brautarinnar árið 2008. Kristján Möller samgönguráðherra og Sturla Böðvarsson fyrrverandi ráðherra með Steinþóri Jónssyni frá Áhugahópnum um tvöföldun brautarinnar.

Mynd frá fundi áhugahóps með þingmönnum kjördæmisins í upphafi baráttunnar.