Ekið á hús og kyrrstæða bifreið
Nokkuð var um umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Tilkynnt var um að ökumaður hefði ekið á hús í Reykjanesbæ. Bíllinn reyndist hafa hafnað á steyptum vegg við anddyri hússins með þeim afleiðingum að loftpúði sprakk út. Ökumaðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til frekari skoðunar og kranabifreið fengin til að fjarlægja bifreiðina.
Annar ökumaður hugðist taka u–beygju á Reykjanesbrautinni með þeim afleiðingum að hann ók í veg fyrir bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Hann og farþegi í bifreið hans sluppu ómeiddir, en ökumaður hinnar bifreiðarinnar kenndi eymsla í hálsi og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Báðar bifreiðirnar voru talsvert skemmdar og voru skráninganúmer tekin af þeim.
Loks var ekið á kyrrstæða bifreið og lét sá er það gerði sig hverfa af vettvangi.