Ekið á björgunarsveitarmann
Ekið var á björgunarsveitarmann á horninu á Bolafæti og Njarðarbraut í Reykjanesbæ nú í kvöld. Lögreglan á Suðurnesjum staðfestir þetta og að haft hafi verið uppi á ökumanni bifreiðarinnar.
Frásögn björgunarsveitarmannsins og þess sem ók á hann ber ekki saman að sögn lögreglu, sem rætt hefur við málsaðila. Lögreglan segir björgunarsveitarmanninn ekki hafa slasast en hjá Björgunarsveitinni Suðurnes fengust þær upplýsingar að maðurinn þyrfti að leita sér læknishjálpar.
Lögreglan gat ekki staðfest að atvikið tengdist aukinni hörku sem virðist vera að færast í flugeldaauglýsingastríðið sem nú virðist vera á Bolafæti. Lögregla hefur þær upplýsingar frá ökumanni bifreiðarinnar að hann hafi talið sig þekkja björgunarsveitarmanninn og viljað grínast í honum. Björgunarsveitarmaðurinn hefur aðra sögu að segja.
Lögreglan hefur ekki þurft að hafa mikil afskipti af „flugeldastríðinu“ en er vel upplýst um framgang mála, enda fara leyfisveitingar vegna flugeldasölu m.a. í gegnum embætti lögreglunnar.
Það er frekar annars konar flugeldastríð sem lögreglan fæst við þessa dagana því hringingum vegna skoteldasprenginga rignir yfir lögregluna. Öflugar sprengjur eru sprengdar í öllum skúmaskotum þar sem hávaðinn verður hvað mestur.
Ekki hafa borist tilkynningar um tjón en ónæðið er mikið og verður örugglega fram yfir þrettándann, að fenginni reynslu síðustu ára. Flestir eru þó sammála um það í dag að sprengingarnar eru öflugri nú í ár en oft áður.
Meðfylgjandi ljósmynd var tekin á þeim slóðum sem ekið var á björgunarsveitarmanninn í kvöld.