Ekið á barn og innbrot
Síðasta vika var fremur róleg hjá Lögreglunni í Keflavík. Þrír voru handteknir fyrir ölvun við akstur en lítið var um umferðaróhöpp þrátt fyrir hálku. Svo virðist sem fólk hafi haft varann á og verið tímanlega í að koma vetrardekkjum undir ökutæki sín.
Vikan var þó ekki alveg án óhappa en ekið var á níu ára gamlan dreng í Njarðvíkunum sl. miðvikudag. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Hann var töluvert marinn á fótum en reyndist minna slasaður en ætlað var í fyrstu.
Brotist var inn í hvalskoðunarbát í Keflavíkurhöfn sl. laugardag. Þjófarnir brutu rúðu í bátnum og fóru ránshendi um skipið. Þeir höfðu þó ekki mikið upp úr krafsinu en þeir tóku m.a. nokkrar kókdósir, þrjá sjónauka og þúsund krónur.
Lögreglan vill minna foreldra og forráðamenn á útivistarreglur barna og unglinga en undanfarnar helgar hefur nokkuð borið á því að ungir krakkar séu úti við seint á kvöldin. Frá 1. september til 1. maí eiga börn 12 ára og yngri að vera komin heim til sín fyrir kl. 20 og börn á aldrinum 13 til 16 ára eiga að vera komin heim kl. 22.