Eittþúsund fleiri íbúar og auknar skatttekjur um 1,3 milljarða
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, í Reykjanesbæ, segir það algerlega óskiljanlegt hvers vegna Guðbrandur Einarsson, oddviti A-lista, reyni ítrekað að gera uppbyggingu í bænum ótrúverðuga og tala verðmæti íbúanna niður. Vísar Árni þar til greinar sem Guðbrandur skrifar í Víkurfréttir á fimmtudaginn.
Árni segir staðreyndir málsins vera þær að íbúum í Reykjanesbæ hafi fjölgað um rúmlega eitt þúsund á undanförnum 4 árum. Skattekjur hafi aukist um 1,3 milljarða á sama tíma og matsíbúðum fjölgað um 20%.
„Þessi fjölgun og tekjuaukning af þeim sökum hefði ekki orðið ef ekki væri uppbygging í sveitarfélaginu. Hún er í samræmi við eftirspurn því öllum auglýstum lóðum undir einbýli, raðhús og parhús í nýju hverfunum í Innri-Njarðvík hefur verið úthlutað. Aðeins 13 lóðir eru eftir í Ásahverfi,“ segir Árni í samtali við VF.
„ Heildarlántaka vegna gatnagerðarframkvæmda er 800 milljónir kr., sem er aðeins 25% af áætluðum tekjum vegna framkvæmdanna,“ sagði Árni ennfremur.
Mynd: Unnið að byggingu Tjarnabrautar 8 í Tjarnahverfi Reykjanesbæjar.