Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eitthvað fyrir alla  á Sjóaranum síkáta
Frá skemmtisiglingu á Sjóaranum síkáta. VF-mynd: Jón Steinar Sæmundsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 10. júní 2022 kl. 08:18

Eitthvað fyrir alla á Sjóaranum síkáta

– helgin er undirlögð af einskærri gleði og allir skemmta sér saman

Sjómannahelgin er framundan en á fáum stöðum á landinu er þessari merku helgi gerð jafn góð skil eins og í Grindavík. Hann er sannkallaður sjávarútvegsbær með nokkrum mjög öflugum sjávarútvegsfyrirtækjum og hefur sjómannadagurinn verið haldinn hátíðlegur frá árinu 1948. Það var árið 1996 sem Grindvíkingar gerðust stórtækari og hinn eini sanni síkáti sjóari fæddist (Sjóarinn síkáti). Þá breyttust hátíðarhöldin umtalsvert og úr varð heil vika má segja í hátíðarhöldum. Í vikunni í aðdraganda helgarinnar eru byrjaðir sýningar af ýmsum toga og spennan byggist hægt og bítandi upp. Hverfunum er skipt upp í fjóra hluta og ber hvert hverfi sinn lit og eins og Grindvíkinga er von og vísa, þá verður til nettur múgæsingur og pissukeppni fer í gang á milli hverfa, um hver skreyti best!

Á föstudeginum er spennan nokkurn veginn komin í algleymi, þá styttist í hið frábæra bryggjuball en fyrst grilla íbúar hverfanna saman, leggja síðan af stað á tiltekinn stað þar sem öll hverfin hittast og saman gengur hersingin fylktu liði að hátíðarsvæðinu sem er við Kvikuna. Landslið íslenskra skemmtikrafta skemmtir síðan ungum sem öldnum og formleg dagskrá er þá hafin. Síðan er helgin svona, undirlögð af einskærri gleði og allir skemmta sér saman.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eggert Sólberg Jónsson hjá Grindavíkurbæ burðast með þennan síkáta sjóara á bakinu en hann hefur veg og vanda af allri skipulagningu. Honum er farið að líka vel við þann síkáta:

„Það er miklu skemmtilegra að hafa nóg að gera við skipulagningu á þessari helgi, samanborið við síðustu tvö ár þar sem engin skemmtanahöld voru þessa helgi. Þetta er ofboðslega gaman, mikið líf og maður finnur hvernig spennan vex og dafnar á meðal bæjarbúa. Mér sýnist veðurspáin ætla verða okkur hliðholl og því get ég ekki ímyndað mér annað en það verði mikið líf í Grindavík um helgina!“

Hvernig hefur skipulagning gengið og hvað mun bera hæst?

„Aðaldagskráin byrjar má segja á föstudeginum en eftir að íbúar og gestir hafa grillað saman, og gengið saman að íþróttahúsinu, verður lagt þaðan í hann klukkan 19:30 og dagskrá Bryggjuballsins hefst stundvíslega klukkan 20:00. Ég er gífurlega ánægður að geta boðið upp á grindvískan trúbador til að stýra bryggjusöngnum en okkar eini sanni Pálmar Örn Guðmundsson mun taka öll helstu sönglögin og flétta nokkrum góðum Grindavíkurlögum inn í jöfnuna. Til hvers að sækja vatnið yfir lækinn? Í framhaldinu stígur Emmsjé Gauti á svið og það gleður mig að geta kynnt hann til leiks. Vinsælasta hljómsveit landsins, Stuðlabandið, mun síðan stíga á stokk og loka kvöldinu en þar eru sannkallaðir fagmenn á ferð, ótrúlega góð hljómsveit sem getur spilað eitthvað fyrir alla. Þetta verður vonandi bara byrjunin á frábærri helgi því eftir bryggjuballið rekur í raun hver viðburðurinn annan. Nokkur böll eru síðar þetta föstudagskvöld og þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Píanóleikarinn og söngkonan Guðrún Árný og Egill Rafns, trommari, munu halda sing-along tónleika á Sjómannastofunni Vör, Nýju fötin keisarans verða í nýja Gígnum hans Kára á Fish House og Paparnir verða með stórt ball í hinum glæsilega sal í netagerðarsalnum á Bryggjunni og munu gestir geta virt fiskitroll fyrir sér í leiðinni. Á laugardagskvöldinu er síðan eitthvað í gangi alls staðar, t.d. verður Láki á Salthúsinu með hljómsveitina Swiss, körfuknattleiksdeild UMFG er með stórt ball í íþróttahúsinu þar sem Auddi og Steindi, Jón Jónsson, ClubDub og BB Brothers trylla lýðinn og svo verður dúettinn Heiður á Fish House! Svona gæti ég lengi haldið áfram, er eflaust að gleyma að minnast á eitthvað.“

Sjóarinn síkáti hefur er fjölskylduhátíð og því er mikið lagt upp úr afþreyingu fyrir börnin:

„Börnin munu hafa nóg fyrir stafni en boðið verður upp á andlitsmálningu, ýmis leiktæki verða í boði og þau hugrökku munu geta þeyst um Grindavíkurhöfn á sjópylsu. Að vanda er boðið í skemmtisiglingu og mun viðkomandi skip sem annast siglinguna fá ákveðinn heiðursvörð við innkomuna en hið eina sanna varðskip, Óðinn, mun sigla í fararbroddi inn í Grindavíkurhöfn og verða gestum og gangandi til sýnis. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson mun mæta á staðinn ásamt forstjóra skipasmíðastöðvarinnar Mirai ships frá Japan, Takeyoshi Kidoura, en fyrirtækið gaf nýtt mastur á Óðinn. Klukkan 13:30 hefst síðan skemmtidagskrá fyrir börnin á sviðinu og þar mun Ronja ræningjadóttir m.a. stíga á svið. Um kvöldið er síðan, eins og áður kom fram, mikið stuð!

Eggert fór vel yfir hve sjálfur sjómannadagurinn er sveipaður miklum hátíðarbrag:

„Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur, sem kemur mjög myndarlega að Sjóaranum síkáta, heldur sjálfan sjómannadaginn á sunnudeginum alltaf í miklum heiðri og er virkilega falleg stund í Grindavíkurkirkju þegar aldraðir sjómenn eru heiðraðir. Eftir bænastundina ganga allir að minnisvarðanum VON en hann var reistur árið 1980 til minningar um drukknaða sjómenn. Mjög hátíðleg stund þar sem Grindavíkurdætur, kvennakórinn okkar, tekur lagið. Svo hefjast aftur hátíðarhöld við bryggjuna og ber kannski hæst hinn eini sanni koddaslagur, þar berjast víkingar á planka með kodda í hönd og sá sem þarf að lúta í lægra haldi fær kalt sjósund. Þetta vekur alltaf gífurlega gleði og margir sem bíða spenntir eftir þessu.“

Eggert hvatti alla til að kíkja til Grindavíkur um Sjómannahelgina:

„Við í Grindavík teljum okkur státa af besta tjaldsvæði landsins en mikill metnaður var lagður í alla hönnun og búast má við að tjaldsvæðið verði troðfullt. Vinir og vandamenn tjalda sömuleiðis í görðum svo eins og ég segi, ég geri ráð fyrir að bærinn verði stútfullur og ekki skemmir fyrir að veðurspáin er okkur hliðholl.“