Eitt frægasta hús Keflavíkur verður að pólskri verslun
Eitt af þekktari húsum Keflavíkur, Víkin, hús Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, hefur verið selt. Þar mun innan skamms opna pólska verslunin Mini Market sem hefur verið við Hringbraut í Keflavík.
„Ég mun færa pólsku búðina við Hringbraut og opna í Víkinni stærri verslun með miklu meira vöruúrvali, meðal annars íslenskum vörum en þær hafa ekki fengist á hinum staðnum. Svo sjáum við til hvað gerist með efri hæðina. Til að byrja með verður hún líklega leigð út,“ segir Pétur Jakubek sem rekur verslanir undir sama nafni m.a. í Breiðholti í Reykjavík og í Hafnarfirði. Hann sagði að húsið væri á frábærum stað og þá væri byggingaréttur til að bæta við tveimur hæðum.
Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur sagðist ánægður með söluna og teysta því að nýr eigandi myndi halda í heiðri sögu hússins. „Þetta er sögufrægt hús. Verkalýðsfélagið var þarna með skrifstofuaðstöðu í mörg ár en í gamla daga var þarna meðal annars veitingastaður sem hét Víkin. Þar var nú kokteilsósan fundin upp,“ sagði Kristján og hló.
Húsið hefur verið á sölu síðan árið 2008 en þá hafði félagið sprengt það utan af sér. Á þeim tíma hafa mörg tilboð borist í húsið, sum ansi skrautleg að sögn Kristjáns. En nú er gamla Víkin komin með nýtt hlutverk og mun í næstu framtíð þjóna Pólverjum sérstaklega en þeir fjölmennastir nýbúa á Suðurnesjum og Íslandi.