Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtudagur 9. ágúst 2001 kl. 10:57

Eitrað eldsneyti á Keflavíkurflugvelli

Varnarliðið hafi hug á að taka í notkun nýtt eldsneyti JP-8 en að sögn starfsmanna á Keflavíkurflugvelli, er umrætt eldsneyti hættulegt heilsu manna. VF leituðu því álits hjá Bergi Sigurðssyni hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja um málið og birta einnig bréf frá starfsmanni á Keflavíkurflugvelli þar sem hann lýsir ótta sínum um að efnið sé skaðlegt heilsu manna.


Eitrað eldsneyti á Keflavíkurflugvelli

Virðulegir Suðurnesjamenn og aðrir búendur þessa lands. Það er von mín með þessum skrifum að eitthvað verði gert að hálfu stjórnvalda til að upplýsa starfsmenn Keflavíkurflugvallar og alla landsmenn, um það að bandaríski herinn (Varnarliðið) er að flytja og taka til notkunar eldsneyti sem kallað er jp-8. Það inniheldur meira af skaðlegum efnum er leggjast á miðtaugakerfið og lifrina. Einnig er í því efni sem kallast jp-5 en það getur orsakað krabbamein.
Ég veit um þessar fyrirhuguðu breytingar á eldsneytisnotkun vegna þess að ég er starfsmaður upp á flugvelli. Við sem vinnum á Keflavíkurflugvelli og allt fólk sem býr í þessu landi, hefur rétt á því að fá að vita þegar svona lagað er gert. Annað eins þykir nú fréttnæmt.
Ég er ekki að leita að sökudólgi en ég vil fá skýringar hvers vegna bandaríski herinn er að fara að nota eldsneyti sem talið er geta valdið miklum skaða. Virtur sérfræðingur í eiturefnafræðum að nafni Mark Witten, hefur unnið að rannsókn á þessu efni jp-8 og segir orðrétt að hann hafi aldrei séð neitt efni sem getur gert meiri skaða á ónæmiskerfi dýra eins og jp-8. Við svona stór orð sef ég ekki rólegur og hvað þá mæti ég yfirvegaður til vinnu. Ég vil benda fólki á heimasíðuna jp8.com og jp8.orc.
Það versta er að við sem ekki getum dæmt um það sjálf hvað sé skaðlegt og óskaðlegt, heyrum ekki frá því fólki sem ber að fylgjast með og standa vörð um mál eins og þetta. Ég leyfi mér að gera ráð fyrir því að bandaríski herinn hafi ekki siglt hér inn flóann með þetta eldsneyti án þess að tilkynna þessar breytingar. Utanríkisráðuneytið og Heilbrigðisráðuneytið vita væntanlega af þessu. Ég tel að bæði ráðuneytin ættu að segja frá því opinberlega hvað þau hafa gert til að kynna sér þetta eldsneyti. Kynnt sér faraldsfræðirannsóknir og aðrar niðurstöður og leitað sérfræðiálits hjá starfandi eiturefnasérfræðingum hér á landi. Þögnin róar ekki niður þann ótta sem nú að fullri réttmætri ástæðu er heldur eykur öryggisleysið og fordóma. Nægir að benda á þá þætti sem RÚV hefur sínt liðna daga um afgreiðslu bandaríska hersins á hermönnum sem urðu fyrir eitrunum í Persaflóastríðinu.
Ég vil heyra frá ráðuneytunum og öllum þeim sérfræðingum sem kunna skil á þessu eldsneyti.
Það er von mín að þetta mál fái umfjöllun eins og mikilvægum málum sæmir er varðar líf og heilsu fólksins í landinu.

Starfsmaður á Keflarvíkurflugvelli


„Skiljanlegt að starfsmenn hafi áhyggjur“
-segir Bergur Sigurðsson hjá Heilbrigðiseftirlitinu

Að sögn Bergs ætlar Varnarliðið að nota JP-8 eldsneyti og kemur það í staðinn fyrir JP-5 sem þeir hafa notað um árabil og er að mörgu leyti sambærilegt eldsneyti. Í báðum tilfellum er um að ræða eldsneyti sem byggist upp á efninu kerosene.
Er nýja eldsneytið hættulegra heilsu manna en eldsneytið sem var notað áður?
Nýlega birtist grein í New Scientist þar sem farið var ófögrum orðum um þetta eldsneyti og því er skiljanlegt að starfsmenn sem eru með einum eða öðrum hætti í snertingu við þetta eldsneyti hafi áhyggjur af málinu. Vissulega er það svo að öll jarðefnaeldsneyti eru skaðleg heilsu manna, það gildir um JP-5, JP-8 rétt eins og um bensínið sem við setjum á bílana okkar. Hvort JP-8 sé hættulegra en annað eldsneyti er ekki gott að segja, mér sýnist þó á þeim gögnum sem ég hef farið í gegnum að svo stöddu að JP-8 og JP-5 séu sett undir sama hatt hvað varðar áhrif á heilsu manna. Þær rannsóknir sem vísað er í New Scientist byggja á rannsóknum á dýrum en því miður er lítið til af faraldsfræðilegum rannsóknum (á mönnum) sem gætu upplýst málið betur.
Eftir því sem best verður að komist eru núna í gangi rannsóknir sem ættu að varpa skýrara ljósi á þessi mál. Heilbrigðiseftirlitið hefur sett sig í samband við erlenda sérfræðinga um málið og mun fylgjast með framvindu mála og þá einkum þeim rannsóknum sem í gagni eru núna í von um að þær skýri málið enn frekar“, segir Bergur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024