Eiríkur gefur steikarlokunni á Dúddunum fimm stjörnur
Fjölmiðlamaðurinn Eiríkur Jónsson er mjög hrifinn af steikarlokunni sem seld er í sjoppunni Dúddanum í Garðinum..
Fjölmiðlamaðurinn Eiríkur Jónsson er mjög hrifinn af steikarlokunni sem seld er í sjoppunni Dúddarnir í Garðinum. Eiríkur, sem heldur úti fréttasíðunni eirikurjonsson.is, gerir ferð sinni á Dúddana skil á síðu sinni.
„Garður á Reykjanesi, þetta 1500 manna bæjarfélag með útsýni til Esjunnar og Reykjavíkur, er þekktari fyrir illvígar deilur í stjórn sveitarfélagsins en skyndibita á heimsmælikvarða.
En í sjoppunni Dúddunum – sem líka selur bensín – er að finna gimstein á matseðlinum: steikarloku í sérlega vel heppnuðu paprikubrauði með fersku salati og safaríkri sinnepssósu. Fimm stjörnur og ekki orð um það meir. Enda er stöðug traffík á Dúddunum, eins og vera ber,“ skrifar Eiríkur á síðu sinni.