Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Einstakt gos í Fagradalsfjalli
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 27. ágúst 2021 kl. 10:32

Einstakt gos í Fagradalsfjalli

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, er orðinn Íslendingum kunnur eftir fjölmörg viðtöl í tengslum við eldgosið í Fagradalsfjalli. Gosið hefur staðið í fimm mánuði og á þeim tíma hefur Þorvaldur farið tugi ferða að eldstöðinni sem vísindamaður og einnig kennari en gosið er lifandi kennslustofa fyrir eldfjallafræðina.  Á fimmtudaginn í síðustu viku, þann 19. ágúst, voru liðnir fimm mánuðir frá því eldgosið hófst. Á þeim tímamótum var Þorvaldur gestur á fundi Rotaryklúbbs Keflavíkur og hélt fræðandi fyrirlestur um eldgosið í Fagradalsfjalli, auk þess sem hann rakti jarðfræði og eldgosasögu Reykjanesskagans.

Þegar hóf að gjósa í Geldingadölum 19. mars var liðið 781 ár frá því síðast gaus á Reykjanesskaganum. Síðasta goshrina á Reykjanesskaga varði í 30 ár en það er hrina sem stóð yfir frá árinu 1210 til ársins 1240 og nefnist Reykjaneseldar. Þeir voru þó aðeins síðasta hrinan í eldsumbrotatímabili sem stóð í 290 ár eða frá árinu 950.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á Reykjanesskaganum eru nokkur eldstöðvakerfi. Reykjaneskerfið, Svartsengi, Krýsuvíkurkerfið, Brennisteinsfjöll og Hengilssvæðið. Fagradalsfjall, þar sem nú gýs, var í apríl á þessu ári skilgreint sem eldstöðvakerfi en þar hafði ekki gosið í að minnsta kosti 6.000 ár þegar Beinavörðuhraun rann. Þráinsskjaldarhraun er enn eldra en það það rann í lok ísaldar, stórt og mikið hraun sem þekur alla Vatnsleysuströndina frá Kúagerði að Vogastapa.

Í viðtali við Víkurfréttir segir Þorvaldur að við séum komin inn í aðra röð eldgosa á Reykjanesskaga. „Nú er spennusviðið sem ræður hvernig hlutirnir gerast á Reykjanesskaganum komið í þannig ástand að það hentar kviku til að komast til yfirborðs. Spennudreifingin á Reykjanesskaganum er í góðum gír fyrir eldgos en hefur ekki verið það undanfarin 700–800 ár,“ segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði í viðtalinu hér blaðinu en viðtalið má einnig sjá í Suðurnesja­magasíni Víkurfrétta á Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 19:30.



„Þurfum ekki að vera með kerfi á miklum yfirþrýsting til þess að það verði gos“

Eldgosið í Fagradalsfjalli hefur staðið í fimm mánuði, gosið í Holuhrauni 2014–2015 stóð í sex mánuði og Skaftáreldar í átta mánuði frá 1783–1784. „Þannig að yfirstandandi gos er að ná þessum gosum í tímalengd en hvað stærðina varðar en þá vantar nokkuð mikið upp á. Gosið í Fagradalsfjalli er stærðargráðu minna en gosið í Holuhrauni og tveimur stærðargráðum minna en Skaftáreldar, allavega eins og stendur,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í viðtali við Víkurfréttir.

Hvað höfum við lært af gosinu hingað til?

„Við höfum lært ýmislegt. Það sem við höfum lært mest af þessu gosi er að það sýnir okkur að við þurfum ekki að vera með kerfi á miklum yfirþrýsting til þess að það verði gos. Skaftáreldar og gosið í Holuhrauni byrjaði með miklum látum og mikilli framleiðni. Í Skaftáreldum voru þetta á bilinu 6.000 til 8.000 rúmmetrar á sekúndu sem komu upp í byrjun og í Holuhrauni voru þetta á bilinu 500 til 600 rúmmetrar á sekúndu. Þetta gos í Fagradalsfjalli byrjaði með fjórum til átta rúmmetrum á sekúndu. Hin gosin byrjuðu með látum en duttu tiltölulega fljótt niður og það dró úr framleiðninni með tíma. Í þessu gosi hefur framleiðnin haldist nokkurn veginn jöfn allan tímann, alla þessa fimm mánuði. Þetta er svolítið eins og það sé verið að gera lítið gat á mjög stóra blöðru og hún er að tæmast hægt og rólega.“

Þannig að gosið er mjög stöðugt?

„Það er það og framleiðnin og „rithminn“ í gosinu er stöðugur. Við höfum séð sveiflur í gígunum. Við fáum hrinur og síðan dettur virknin í gígunum niður í smá tíma og kemur upp aftur. Það tengist bara ferlum sem eru allra efst í gosrásinni, efstu 100 metrunum í gosrásinni. Eins og komið hefur fram áður þá er gosrásin 17 km. löng.“

Vitið þið hvað er að gerast undir þessum 100 metrum?

„Í sjálfu sér ekki. Við vitum þó að kvikan kemur upp og hún rís mjög hægt. Rishraðinn á kvikunni er ca. 350 - 400 metrar á dag eða 7,5 millimetrar á sekúndu, þannig að kvikan kemur mjög hægt upp en flæðið er stöðugt. Þó við sjáum þessar breytingar á yfirborðinu, þá eru þær ekki að hafa áhrif á það sem er að gerast neðar í gosrásinni.“

Algjör draumur

Er þetta ekki draumur vísindamanna að fá þetta gos á þessum stað?

„Jú, bæði sem vísindamanni í rannsóknum og sem kennara á þessu sviði þá er þetta algjör draumur. Þangað getur maður farið með nemendur í stað þess að reyna að sýna þeim þetta á glærum, í teikningum eða á töflunni. Við getum núna sýnt þetta í náttúrunni á vettvangi.“

Þetta er eitthvað sem ekki hefur gerst áður á Íslandi og er öðruvísi en þið þekkið.

„Svona gos, sem byrja svona hægt og halda dampi, höfum við ekki séð síðan vísindamenn fóru að rannsaka eldgos. Það sem kemst næst þessu er Surtseyjargosið. Fyrstu þrjá mánuðina í Surtsey var virknin töluvert öflug en datt svo niður og var á þessum dampi sem við erum að sjá í gosinu í Fagradalsfjalli í þrjú og hálft ár.“

Hvaða þekkingu hafið þið fengið úr þessu gosi, hafið þið lært margt nýtt?

„Já, já, alveg feikimargt nýtt. Ég nefni þrjú dæmi. Gosórói tengist afgösuninni og myndun þessara stóru gasbóla sem eru að koma upp og keyra kvikustrókana áfram. Við erum að sjá að lögunin á gosrásinni allra efst hefur mikið að segja um hvernig gosið hegðar sér á hverjum tíma, hvort það eru hrinur eða ekki hrinur. Svo erum við að sjá það að við erum að fá allar þessar hrauntegundir. Allar þær hrauntegundir sem við þekkjum, basalthraun á yfirborði jarðar eru að myndast þarna. Samt eru við ekki að sjá neinar breytingar í framleiðni eða í samsetningu á kvikunni. Við getum tekið þessa þætti í burtu og þeir eru ekki að stjórna því hvers konar hraun er að renna. Það eru aðrir þættir eins og hitabúskapur hraunsins, halli undirlagsins, hvernig landslagið er og hvernig staðbundið flæði er að haga sér á hverjum tíma. Við getum rannsakað þetta þætti í þessu gosi mun betur heldur en í öðrum gosum þar sem framleiðni er alltaf að breytast og það hefur áhrif líka.“

Atburðir á undanförnum árum sem sennilega tengjast undirbúningi gossins

„Í upphafi voru menn sannfærðir um að þessir skjálftar sem voru undanfari gossins væru fyrst og fremst hreyfingar á plötuskilum. Það er alveg rétt að það var stór þáttur í þeim. Það kom líka í ljós eftir á að tilfærsla á kviku átti þátt í þessum óróa líka. Það sem er kannski skemmtilegast við þetta er að þetta er í raun og veru að sýna okkur samspil á milli plötuhreyfinganna og það að búa til rás fyrir kviku til að komast til yfirborðs. Þetta er eitt besta dæmið sem við höfum fengið á Íslandi,“ segir Þorvaldur um aðdraganda gossins í Fagradalsfjalli.

Aðspurður hvort menn séu farnir að rekja aðdragandann að gosinu með því að rýna í nútímasögubækurnar, þá segir Þorvaldur að það sé helst verkefni fyrir skjálftafræðinga. Blaðamaður rifjar upp öfluga skjálftahrinu í júlímánuði 2017 þegar menn héldu hreinlega að það væri að fara gjósa á sömu slóðum og nú gýs.

Atburðir við Þorbjörn hluti af sömu atburðarás

„Það er alveg rétt að það eru búnir að vera atburðir á undanförnum árum sem sennilega tengjast undirbúningnum á einn eða annan hátt þó svo við vitum ekki nákvæmlega hvernig. Svo má líka hugsa þetta þannig að aðdragandinn sé búinn að vera 781 ár. Þetta er hlutur sem við erum að læra og eftir því sem við fáum meira af gögnum og náum að safna gögnum yfir langt tímabil þá fáum við meira af upplýsingum um hugsanleg tengsl þarna á milli og það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því í framtíðinni.“

Atburðir sem urðu vestan við Þorbjörn, þegar land tók að rísa þar og lýst var yfir óvissustigi almannavarna, tengjast þeir því sem nú er að gerast í Fagradalsfjalli?

„Hvort það tengist beint eða óbeint, þá er þetta hluti af sömu atburðarás. Hvort að sú rúmmálsaukning sem varð vestan við Þorbjörn, þá hugsanlega vegna þess að kvika er að koma þar inn eða að sú kvika tengist eitthvað þeirri kviku sem er að koma upp í Fagradalsfjalli vitum við ekki og fáum sennilega aldrei að vita fyrr en við náum í sýni úr þessari kviku.“

Þið skiptið Reykjanesskaganum upp í eldstöðvakerfi.

„Eldstöðvakerfin eru okkar leið til að lýsa á einfaldan hátt flóknum fyrirbærum en það er ekki þar með sagt að það geti ekki verið tengsl á milli þeirra. Þó að það sé virkni á einu kerfi, þá getur líka verið virkni á öðru kerfi vegna þess að oft tengist það heildarspennusviðinu á Reykjanesskaganum og það getur náð yfir miklu meiri vegalengdir heldur en þessi skipting sem hentar okkur og okkur finnst þægileg í daglegu tali um jarðfræðina.“

Fáum fleiri eldgos á næstu áratugum á Reykjanesskaga

„Við erum komin inn í aðra röð eldgosa á Reykjanesskaga. Nú er spennusviðið sem ræður hvernig hlutirnir gerast á Reykjanesskaganum komið í þannig ástand að það hentar kviku til að komast til yfirborðs. Spennudreifingin á Reykjanesskaganum er í góðum gír fyrir eldgos en hefur ekki verið það undanfarin 700–800 ár. Eitthvað hefur breyst en ég þori ekki að fullyrða nákvæmlega hvað það er en á næstu áratugum munum við fá fleiri gos á Reykjanesskaga. Ekki þá bara við Fagradalsfjall, heldur á öðrum stöðum á Reykjanesskaganum og hugsanlega þegar yfir er staðið erum við búin að fá gos eftir öllum endilöngum Reykjanesskaga,“ segir Þorvaldur.

Er þetta gos ekki góð áminning til okkar um að horfa betur í kringum okkur varðandi innviði og það sem þú kallaðir á fyrirlestrinum „Plan B“?

„Jú, þetta er besta viðvörum sem við gátum fengið. Þetta er lítið gos og aðgengilegt. Við erum með fullt af mælum og getum mælt allt sem tengist þessu og við getum notað þetta gos til að læra hvernig á að bregðast við t.d. hraunflæði á ákveðnum stöðum, mengun á ákveðnum stöðum og þar fram eftir götunum. Við getum búið okkur undir og verið betur undirbúin að takast á við atburði sem geta gerast miklu hraðar en þessi atburður og vera miklu stærri. Þetta var eins og best var á kosið þannig séð.“

Gos inni í stofu hjá fólki

Gosið í Fagradalsfjalli er án efa eitt mest myndaða gos sögunnar. Gosið er í beinni útsendingu allan sólarhringinn og því liggur beinast við að spyrja hvort myndefnið sem fellur til í fjallinu komi ekki að góðum notum fyrir vísindamennina til framtíðar?

„Jú, og við erum þegar farnir að nota það mjög mikið. Það er ómetanlegt að geta fylgst með gosinu á þennan hátt. Eins þessi nýju tól og tæki eins og drónarnir sem við getum nýtt okkur og fengið frekari upplýsingar. Þetta er líka merkilegt fyrir fólkið sem fylgist með því þetta er í raun eldgos inni í stofu hjá þér. Ef þú vilt þá getur þú verið með þetta gos á sjónvarpsskjánum heima hjá þér allan sólarhringinn og fylgst með svo lengi sem það er ekki þoka eða ef myndavélarnar virka ekki.

Hinu megum við ekki gleyma að myndavélarnar horfa bara á þetta frá ákveðnum sjónarhóli. Það eru fleiri sjónarhorn á gosinu og við verðum að passa upp á að ná í þau líka.“

Eldstöðin hleðst upp og það er horft til Suðurstrandarvegar. Hvenær þurfum við að fara að hafa áhyggjur af þessu gosi miðað við þann gang sem er á því í dag?

„Ef gosið heldur áfram með sama hætti þá má gera ráð fyrir að Suðurstrandarvegur verði í hættu af hraunflæði snemma á næsta ári. Ég hugsa að það taka það langan tíma allavega að komast þangað niðureftir. Það getur líka verið styttri tími og það fer alveg eftir hvernig hraunið kemur útúr dölunum. Ef það kemur úr Meradölum þá er það spurningin hvernig það kemur úr þaðan. Kemur það út sem einangrað hraunflæði sem getur þá byggt rás tiltölulega hratt niður að sjó. Þá getum við verið að tala um vikur þangað til hraunið er komið yfir Suðurstrandarveginn. Ef að það er opin rás, þá kólnar hraunið tiltölulega hratt og þá fer það að hlaðast upp og þá fer hraunið að tefja fyrir sjálfu sér og þá getur það tekið marga mánuði áður en það kemst niðureftir. Miðað við ganginn í gosinu þá býst ég við því snemma á næsta ári ef gosið verður ennþá í gangi.“

Hrauntjarnir sem við sjáum spila stórt hlutverk í uppbyggingu hraunsins.

„Þær stjórna því hvernig það flæðir og ráða mjög miklu um það hvort það fer áfram eða ekki. Flæði frá gígunum er tiltölulega lítið og þá virðist það bara safnast í þessa stóru polla. Svo brjótast þeir út og þá veður hraunið áfram og býr til nýja polla neðar. Þetta stekkur úr einum hyl yfir í annan.“

Kjarninn í hrauninu helst lengi heitur

Hvað er að gerast undir hraunhellunni sem við sjáum við eldstöðina?

„Í mörgum tilfellum er þetta bara skán yfir. Þetta er skorpa sem er að myndast á hrauninu og hún er kyrrstæð. Hún hefur styrk og getur haldið sjálfri sér uppi. Neðri hlutinn á henni er deigur og heldur skorpunni uppi. Svo erum við með hraunkviku sem rennur undir. Það er engin hreyfing á skorpunni en hún er að þykkna neðanfrá og hún lyftist hægt og rólega upp. Ef við horfum á þetta í nægan tíma þá sjáum við yfirborðið tjakkast upp. Ef við horfum á dalina þá er alveg óvenju slétt hraunið þar. Ef þú ert með hraun sem rennur fram sem totur, þá býr það ekki til slétt hraunyfirborð. Það tjakkast upp að innan. Svo þykknar skorpan og verður sterkari og sterkari. Þetta einangrar hraunið mjög vel. Kjarninn í því helst heitur í langan tíma og ef hann kemst út þá getur hann flætt áfram mjög auðveldlega.“

Við sjáum myndir af fólki sem er komið langt út á hraunið. Hversu mikil glapræði er þetta?

„Þetta er óþarfa áhætta. Ég hef nú sagt það áður að mér finnst mikilvægara að fólk eigi að halda sig á öruggum stað og njóta sjónarspilsins sem er í gangi, heldur en að fara í óðagoti út á eitthvað hraun bara til að geta sagst hafa komið nálægt glóandi hrauni. Ef að það kemur undanhlaup og þú ert úti á hrauninu, þú hleypur ekki á undan því. Þau geta farið mjög hratt yfir. Stundum fara þau mjög hægt og yfirleitt gera þau það. Það eru til dæmi um það að undanhlaup geta farið hraðar en maður getur hlaupið. Ef að menn lenda í slíku þá þarf ekki að spyrja að endalokum.“

Svo er gas.

„Svo er það gasið. Það leggst í polla og það er stundum logn á Íslandi og það getur verið hættulegt ef þú ert að fara ofan í dali, þá situr gasið í pollunum. Vindur hjálpar til og alltaf betra að vera með vind í bakið.“


Gróður örugglega farinn að myndast á nýju hrauni

Í hrauninu er gríðarlegur varmi. Eyjamenn nýttu hann í hitaveitu á sínum tíma en Þorvaldur heldur að umfang hraunsins þurfi að vera mun meira áður en það verður hagkvæmt að nýta varmann til t.d. upphitunar á vatni. Varminn mun þó hafa áhrif á gróðurfar og nefnir sem dæmi að mosi á hrauninu sem rann í Skaptáreldum sé óvenju þykkur. Menn hafa nefnt þá ástæðu að hraunið var heitt í marga áratugi á eftir. „Kannski ekki sjóðandi heitt en fyrir ofan meðalhita og mosinn nýtir sér það eins og á sólarströnd, fínt veður og góður hiti.“

Hvenær sjáum við gróður á þessu nýja hrauni í Fagradalsfjalli?

„Hann er örugglega byrjaður að myndast. Það kæmi mér ekki á óvart ef við myndum labba fram á eina mosaþembuna þarna,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, í viðtali við Víkurfréttir.