Einstaklega góð samstaða bæjarfulltrúa í Suðurnesjabæ
„Nú er liðið að lokum kjörtímabils bæjarstjórnar, þeirrar fyrstu í sögu Suðurnesjabæjar eftir sameiningu Garðs og Sandgerðis. Það voru áhugasamir bæjarfulltrúar sem sátu fyrsta fundinn, fullir tilhlökkunar fyrir því óskrifaða blaði sem hið nýja sveitafélag var. Framundan var fjöldi verkefna sem bæjarfulltrúar sáu fram á, verkefni sem voru í senn flókin og spennandi. Enginn átti þó von á því stóra verkefni sem kom í fang bæjarstjórnar og starfsfólks sveitarfélagsins þegar leið á mitt kjörtímabil, þegar heimsfaraldur Covid-19 skall á,“ segir í bókun Einars Jóns Pálssonar, forseta bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar, sem lögð var fram á síðasta fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar.
Þá segir í bókuninni: „Samstaða meðal bæjarfulltrúa hefur á þessu kjörtímabili verið að mínu mati einstaklega góð. Við tókumst sameiginlega á við verkefnin, hvort heldur þau sem við sáum fyrir og einnig þau óvæntu. Það var og er gott að finna fyrir þeirri samstöðu sem hefur einkennt þessa bæjarstjórn og ég er stoltur af starfi okkar þetta kjörtímabil, þó eflaust megi alltaf gera betur.
Ein breyting varð á bæjarstjórn á miðju kjörtímabilinu þegar Ólafur Þór Ólafsson sagði skilið við bæjarmálin í Suðurnesjabæ og tók við stöðu sveitarstjóra á Tálknafirði.
Nú þegar þessu kjörtímabili lýkur verður mjög mikil endurnýjun í bæjarstjórn, fimm bæjarfulltrúar gefa ekki kost á sér og hverfa úr bæjarstjórn. Þetta eru bæjarfulltrúarnir Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Pálmi Steinar Guðmundsson, Daði Bergþórsson, Fríða Stefánsdóttir og Katrín Pétursdóttir, en þau hafa mikla reynslu af sveitarstjórnarstörfum og verður mikill missir af þessu góða fólki. Ég þakka þessum bæjarfulltrúum sérstaklega fyrir mjög gott samstarf og mörgum þeirra fyrir áralangt samstarf.
Fyrir hönd bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar þakka ég öllu nefndarfólki sem og starfsfólki sveitarfélagsins fyrir störf þeirra og gott samstarf á kjörtímabilinu. Vil ég þá sérstaklega þakka bæjarstjóra og ritara bæjarstjórnar ánægjulegt og mjög gott samstarf.
Framtíð Suðurnesjabæjar er björt og framundan eru spennandi tækifæri í þróun sveitarfélagsins. Við sem hér búum vitum að það er hvergi betra að búa og það er okkar að sjá til þess að svo megi verða áfram.
Ég óska bæjarfulltrúum, starfsfólki og íbúum Suðurnesjabæjar gleðilegs sumars og farsældar,“ segir í bókun forseta bæjarstjórnar.