Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Einskonar baktería
Mánudagur 17. apríl 2006 kl. 11:20

Einskonar baktería

Suðurnesjamennirnir Birgir Guðbergsson og Þórður Óskarsson hafa valið sér starfsvettvang sem okkur meðaljóninum þætti nokkuð framandi og jafnvel viðsjárverður en þeir starfa hjá friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna í Líberíu  um þessar mundir.  Þeir hafa áralanga reynslu af störfum á þessum vettvangi, allt frá byrjun  síðasta áratugar þegar þeir fóru til starfa hjá SÞ við upphaf stríðsátakanna á Balkanskaga. Þeir Biggi og Doddi, eins og þeir eru kallaðir, voru í stuttri heimsókn á landinu núna í vikunni og Ellert Grétarsson hitti þá við það tækifæri.

Hugsjónir og  ævintýramennska

Þórður hóf störf hjá SÞ árið 1993 í fyrrum Júgóslavíu og ári seinna kom Birgir þangað til starfa. Síðan þá hafa þeir verið samferða í störfum sínum á þessum vettvangi. Þórður hvarf reyndar til starfa á öðrum vettvangi 1998 en réði sig aftur til SÞ fyrir tveimur árum þegar SÞ tók við stjórninni í Líberíu. En hvað er það sem togar menn til slíkra starfa á stríðshrjáðum svæðum við misjafnar aðstæður? „Það má segja að þetta sé ákveðinn lífstíll, þar sem blandast saman hugsjónir og ævintýramennska. Af hverju menn festast í þessu er ekki gott að segja, en hluti af því er eflaust það að finna að maður er hluti af stærri heild og gerir eitthvað gagn“, segir Þórður.  „Við fórum báðir til Júgóslavíu  þegar stríðið stóð sem hæst og ætluðum að vera í þessu í stuttan tíma. En einhverra hluta vegna erum við í þessu ennþá og það eru mörg dæmi um fólk sem hefur ílengst í þessu árum saman, hætt oft en alltaf togast í þetta aftur. Þannig að eflaust er þetta einskonar baktería“, bætir Biggi við. 

Íslensk jeppamennska nýtist í Afríku

Birgir fór til Júgóslavíu sem bílstjóri á sínum tíma. Í dag vinnur hann við faratækja- og flutningadeild sem hefur með höndum umsjá þeirra 1.800 ökutækja sem SÞ eru með í Líberíu. Allir starfsmenn og hermenn SÞ þurfa að undirgangast sérstakt bílpróf að undangenginni þjálfun þar að lútandi og hefur deildin  sem hann stjórnar yfirumsjón með því, ásamt ýmsu öðru tengdu ökutækjaflotanum, s.s. öryggismál, skráningu slysa og tjóna hvernig hægt er að draga úr þeim.  Að sögn Birgis þarf að þjálfa menn sérstaklega til að aka á þeim lélegu vegum sem liggja um landið, t.d. verði allir vegir fljótandi leir yfir regntímabilið.  „Við erum nær eingöngu með aldrifsbíla og spil á flestum stærri farartækjum því aðstæður til aksturs geta oft á tíðum verið alveg afleitar. Hluti af þjálfuninni felst í því að kenna fólki að aka við þessar aðstæður og takast á við þær en margir hverjir hafa aldrei haft kynni af jeppum. Þegar þú situr fastur í leirsandi eða leðju einhvers staðar út í skógi er kannski ekki hægt að hringja í einhvern til að sækja mann og því verða menn að læra bjarga sér“, segir Biggi. Þá liggur beinast við að spyrja hvort bakgrunnur Íslendingsins, í landi þar sem jeppamenningin á sér sterkar rætur, hafi ekki nýst honum vel í starfi? „Jú, alveg örugglega. Þó það snjói aldrei þarna þá gilda sömu lögmálin um jeppaakstur við erfiðar aðstæður. Einnig hef ég farið á námskeið á vegum bílaframleiðanda og aflað mér þannig nokkurrar þekkingar á þessu sviði sem ég miðla svo áfram“, svarar Birgir.  Þórður starfar hins vegar hjá ljósavéladeild, innan Verkfræðideildar SÞ sem annast uppsetningu, eftirlit og viðhald með díselrafstöðvum víða um landið. Engar starfshæfar rafmangnsveitur eru í landinu, sem hefur verið rafmagnslaust síðan 1989, og því þarf að styðjast við dísel rafstöðvar sem eru um 600 í notkun eingöngu fyrir stafsemi SÞ,  að sögn Þórðar.  Þá felst starfið einnig í því að þjálfa heimamenn til geta annast rafstöðvarnar SÞ. 

Óspennandi aðkoma

Sameinuðu þjóðirnar fóru inn í landið haustið 2003 eftir að Charles Taylor lét stjórnartaumana af hendi og var Birgir í för með fyrstu sveitunum sem komu á vettvang til að hefja uppbyggingastarfið og annast friðargæslu. Þórður kom svo til Líberíu í mars 2004. SÞ átti mikið starf fyrir höndum þar sem nánast allt var í rúst og aðstæður gríðarlega erfiðar eftir margra ára óöld og þrengingar. Í borginni var allt í niðurníslu og sóðaskapur mikill, ekkert rennandi vatn og ekkert skólpkerfi. Að sögn þeirra félaga hefur mikið ánunnist í starfi SÞ í landinu, þó talsvert sé í land ennþá. „Aðkoma SÞ var mjög vel undirbúin í New York og valinn starfsmaður í hverri stöðu. Engu að síður var allur aðbúnaður frekar erfiður til að byrja með þar sem við höfðum við nánast ekkert í höndunum. Til dæmis höfðum  mjög takmarkað val um staði til að sofa á eftir vinnudaginn og komum okkar fyrir á dýnum og í tjöldum í þeim byggingum sem SÞ höfðu flust inn í. Einhvern veginn tókst að koma upp mjög takmarkaðri skrifstofuaðstöðu á fyrstu dögunum og sumir sváfu þar líka. Öryggis vegna var okkur ráðlagt að hafast við í þeim byggingum sem SÞ hafði fengið til umráða og þar sem það húsnæði var af skornum skammti sváfum við 20 saman í einu litlu herbergi“, segir Birgir þegar hann rifjar upp fyrstu dagana í  Monróvíu, höfuðborg Líberíu.   „Mér er það minnistætt þegar ég ásamt nokkrum vinnufélögum gistum á hóteli sem bar það virðulega nafn Hollyday Inn. Það kom nú í ljós að þetta hafði ekkert með þá þekktu hótelkeðju að gera. Aðbúnaðurinn þar og óþrifnaður var alveg hræðilegur en við höfðum þó allavega öruggan stað til að sofa ár.  Vatnið borið inn í fötum fyrir okkur, sem við notuðum til að þvo okkur og baða, segir Birgir og glottir út í annað við tilhugsunina. 

„Sjómennska“ í Sahara

Biggi hefur upplifað ýmislegt í starfi sínu hjá SÞ og um tíma var hann á þeirra vegum í Sahara-eyðimörkinni.  Þar var hann í sveit sem hafði það verkefni fylgja bílalestum inn í eyðimörkina, sem fluttu vistir og vatn til friðargæsluliðsins. Þessar ferðir gátu tekið 5 til 6 daga  við mjög erfiðar aðstæður í steikjandi hita og stundum í sandstormum, sem máðu út allar slóðir.  „Ég stundaði sjómennsku hér heima á sínum tíma og þetta minnti mann stundum á hana. Maður var með sömu siglingatækin en í staðinn fyrir að finna baujur var maður að leita að tjaldbúðum“, segir Biggi. „Við urðum mikið til að reiða okkur á tækin því einn sandstormur gat breytt öllu landslaginu og máði út allar slóðir. Einnig notuðum við tækin til að sneiða fram hjá jarðsprengjusvæðum. Það gat komið fyrir að stærsti sandskaflinn myndaðist einmitt í leið okkar. Við gátum ekki sneitt framhjá vegna hættu á jarðsprengjum heldur urðum við að fara í gegn, hvað sem tautaði og raulaði. Erfiðast var að koma fyrsta farartækinu yfir en eftir það var hægt að nota keðjur og kaðla til að toga hin í gegn. Þetta var oft óttalegt streð sem tók mikinn tíma“, segir Biggi. „Þetta er bara eins og með innsiglinguna í Sandgerði eða Grindavík, ef þú ert ekki akkúrat í línunni þá lendirðu í vandræðum“. 

Vel tekið af  heimamönnum

Eins og skýrt er á heimasíðu SÞ í Líberíu (unmil.org) er meginhlutverk SÞ að koma á lögum og reglu, þjálfa her og lögreglu og komu hlutunum í þann farveg að heimamenn geti tekið alfarið við stjórninni síðar. En hvernig taka heimamenn liði SÞ, eru menn öryggir um líf sitt og limi á slóðum sem þessum? „Heimamenn taka okkur vel og eru vingjarnlegir í okkar garð. Það er búið að koma á góðu jafnvægi og nokkuð friðvænlegt um að litast í landinu. Mesta spennan er úr sögunni og þrátt fyrir að það búi 16 þjóðflokkar í landinu er ekki mikið um róstur enda hefur að mestu leiti tekist að afvopna landsmenn“, segja þeir félagar.    Varðandi aðrar hættur  segjast þeir aðspurðir hafa að mestu sloppið við sjúkdóma eins og malaríu, sem er mjög skæð á þessum slóðum, en þeir eru búnir að fara í ófáar bólusetningarnar. Menn eru þó aldrei öryggir því malarían lagði Bigga í rúmið haustið 2003. Varð hann all veikur að eigin sögn, en náði blessunarlega að jafna sig. Í haust fóru fram kosningar í landinu, þær fyrstu síðan 1997 og eru bundnar miklar vonir við nýjan kvenforseta, Ellen Johnson Sirleaf. Landsmenn eru bjartsýnir á að undir hennar stjórn takist að koma á endanlegum friði og umbótum í landinu. Að sögn þeirra félaga hefur mikill árangur náðst síðan SÞ komu til skjalanna í Líberíu og það gefi starfinu gildi. Að sjá og finna slíkan árangur sé mjög gefandi.  

Strembið á stundum

En nú eruð þið búnir að vera í þessu lengi, kynnst afar misjöfnum aðstæðum og orðið vitni að mannlegum hörmungum á stríðshráðum svæðum, séð afleiðingar stríðs, fátæktar og örbrigðar.  Koma ekki þær stundir að menn langi mest til að hætta þessu og drífa sig heim? „Jú vissulega hafa þær stundir komið  að maður hefur spurt sjálfan sig maður sé eiginlega að gera hérna“, segir Þórður og hlær. Birgir tekur undir það. „Þetta starf getur verið strembið á köflum og stundum langar mann mest til að vera heima á Íslandi í öryggi og notalegheitum “, segir Biggi og brosir. Þeir eru sammála um að af þeim verkefnum sem þeir hafa verið í, sé Líbería mest gefandi. Ekki síst vegna nálægðarinnar og samvinnunnar við fólkið í landinu  sem tekur þeim vel og vingjarnlega, eins og áður sagði. Það sé ólíkt því sem gerist sums staðar annars staðar þar sem litið er á SÞ sem aðskotahlut. Það að sjá árangur og breytingar sé mjög gefandi, einnig að finna að einstaklingsframtakið í starfinu fái að njóta sín. Þetta verkefni sé t.d. gjörólíkt öðrum af sama toga, t.d. í Írak þar sem sama óöldin ríkir mánuð eftir mánuð og engin árangur er sjáanlegur.  „Þrátt fyrir að starfið geti stundum verið strembið eins og áður sagði, þá bítur maður á jaxlinn og heldur áfram. Þegar maður er líka búinn að gera starfssamning, þá klárar maður hann. Maður er búinn að taka að sér ákveðnar skyldur og þá labbar maður ekki bara í burtu þó á móti blási.  Líka vegna þess að þetta er hugsjónastarf sem knýr mann áfram“, sögðu þeir félagar að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024