„EINN MONTJEPPI Á MÁNUÐI TIL ÁRAMÓTA“
Gjaldahæsti einstaklingurinn í Reykjanesumdæmi varð Garðar Brynjólfsson útgerðarmaður en hann hefur rekið samnefnt fyrirtæki sitt um árabil. Garðar sagðist ekki hafa viljað fara einhverjar krókaleiðir til að lækka skattana t.d. með fjárfestingu í öðru útgerðarfyrirtæki.„Þetta er söluhagnaðurinn af Elínu annarri KE 24 með veiðiheimildum en hann var samtals um 52 milljónir. Ég hef borgað skatta síðan ég var 16 ára hjá ÍAV, borgaði t.a.m. 4. m.kr. í gjöld á síðasta ári, og er ekki ósáttur við það. Ástæðan fyrir þessu er einföld, ég er orðinn fullorðinn og er að draga saman seglin. Þegar lögunum var breytt fyrir tveimur árum urðu reglurnar einfaldar, hagnað af kvótasölu er ekki hægt að færa út úr atvinnugreininni. Þetta er í raun gott mál og réttlátt, þeir sem draga sig út úr kerfinu borga skatt af kvóta sínum. Ég á ennþá fiskvinnsluna og er því ekki alveg sestur í helgan stein en hvers vegna á maður að vera að vinna fram á síðasta dag. Segja mætti að ég borgi einn montjeppa á mánuði til áramóta“ sagði Garðar að lokum.