Einn maður lést og annar þungt haldinn á spítala eftir eldsvoða í skipi
Einn maður lést þegar eldur kom upp í fiskiskipinu Grímsnesi GK í Njarðvíkurhöfn á þriðja tímanum í nótt. Þrír voru um borð í skipinu þegar eldurinn kom upp. Tveir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS. Endurlífgunartilraunir á þeim þriðja báru ekki árangur. Hann var einnig fluttur á HSS þar sem hann var úrskurðaður látinn. Einn var svo fluttur frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á Landspítalann. Ástand hans var alvarlegt.
Aðstæður á vettvangi brunans voru mjög erfiðar að sögn Sigurðar Skarphéðinssonar, aðstoðarslökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja. Mikill hiti var í skipinu og reykkafarar gátu ekki farið hefðbundna leið niður um stiga úr stýrishúsi, þar sem hann var brunninn í burtu.
Útkall barst rétt eftir kl. 02 í nótt og voru allir starfsmenn Brunavarna Suðurnesja kallaðir út en tuttugu og átta manns frá BS tóku þátt í útkallinu. Allur bílafloti slökkviliðsins og sjúkrabílar voru sendir á vettvang. Jafnframt var fjölmennt lögreglulið frá lögreglunni á Suðurnesjum á staðnum.
Mikinn reyk og sterka brunalykt lagði yfir byggðina í Njarðvík.
Það var ljóst þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn að ástandið var alvarleg. Mikinn reyk lagði frá skipinu og ljóst að mikill eldur var um borð. Reykkafarar fóru strax um borð og fundu manninn sem saknað var mjög fljótlega. Hitamyndavélar slökkviliðsmanna sýndu mikinn hita. Fljótlega mátti svo sjá eldtungur stíga upp af skipinu. Slökkvistarf var tímafrekt en eldur gaus aftur upp í skipinu undir morgun. Slökkvistafi var að ljúka nú á tíunda tímanum í morgun.