Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Einn gígur virkur og kvikusöfnun heldur áfram
Þriðjudagur 4. júní 2024 kl. 17:24

Einn gígur virkur og kvikusöfnun heldur áfram

Eldgosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 29. maí hefur nú staðið í sex sólarhringa. Eftir nokkuð kröftuga byrjun dróst virknin saman í þrjá gíga sem voru virkir um síðastliðna helgi. Breyting varð á virkninni í nótt og svo virðist sem einungi einn gígur sé virkur eftir nóttina. (Sjá staðsetningu gígsins á hættumatskorti ) Gígurinn sem ennþá er virkur er staðsettur rétt við þann gíg sem gaus lengst úr í eldgosinu sem hófst 16. mars og endaði 9. maí. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands.

Hraunstraumar úr þeim gíg sem er virkur eru til norðvesturs að Sýlingarfelli og meðfram því að norðan. Einnig eru virkir hraunstraumar til suðurs í átt að Hagafelli. Gera má ráð fyrir að dregið hafi úr hraunstraumi til suðaustur í átt að Fiskidalsfjalli eftir að virknin færðist yfir í einn gíg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Meðfylgjandi eru tvær myndir úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er uppi á Þorbirni og horfir yfir gosstöðvarnar. Á fyrri myndinni, sem tekin er kl. 02:00 sést kvika koma upp úr tveimur  gígum, en seinni myndin sem tekin er klukkustund síðar sýnir einungis kviku koma úr stærri gígnum.

Gigar1_04062024
Gigar2_04062024

Nýleg gögn benda til þess að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður

Aflögunarmælingar sýna að land heldur áfram að síga í Svartsengi. Þegar kvikuhlaupið byrjaði í aðdraganda eldgossins þann 29. maí seig land í Svartsengi um 15 cm, en hefur nú sigið um 4-6 cm til viðbótar á undanförnum dögum. Það að land haldi áfram að síga þetta mörgum dögum eftir upphaf goss er ólíkt því sem hefur áður sést í eldgosunum á Sundhnúksgígaröðinni.

Í fyrri kvikuhlaupum/eldgosum, hefur mest allt sig samfara þeim einungis mælst á allra fyrstu dögum en strax í kjölfarið farið að mælast landris. Landsigið bendir til þess að á þessu stigi flæði meira magn kviku úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, heldur en að flæði inn í það af dýpi.

Aflögunarmælingar á Svartsengissvæðinu og þróun eldgossins næstu daga munu gefa skýrari mynd af framhaldi kvikusöfnunar undir Svartsengi. Líkanreikningar og mat á hraunflæði í gosinu benda hins vegar til þess að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður.

Uppfært hættumat

Veðurspá í dag (þriðjudag) er norðanátt og mun gasmengunin berast til suðurs, líkur á mengun um tíma í Grindavík. Norðvestlægari á morgun, gasmengun mun þá berast til suðausturs. Talsverð óvissa er með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is.

Hættumat hefur verið uppfært í ljósi þróunar eldgossins og veður- og gasdreifingaspár. Hættumat er að mestu óbreytt, en svæði 7 hefur verið fært niður í nokkra hættu (gult). Áfram er mjög mikil hætta (fjölublátt) á svæði 3 sem nær yfir Sundhnúksgígaröðina og upptök eldgossins. Á svæði 4 (Grindavík) og 6 er áfram mikil hætta (rauð) og svæði 1 og 5 töluverð hætta (appelsínugult). Kortið gildir að öllu óbreyttu til 7. júní.

Haettusvaedi_VI_4juni_2024