Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Einn af hverjum tíu sem leitað hafa til umboðsmanns skuldara búsettir á Suðurnesjum
Föstudagur 17. desember 2010 kl. 10:11

Einn af hverjum tíu sem leitað hafa til umboðsmanns skuldara búsettir á Suðurnesjum

Umboðsmaður skuldara opnaði útibú sitt í Reykjanesbæ í gærdag. „Þetta er söguleg stund fyrir umboðsmann skuldara þar sem þetta er í fyrsta útibúið sem opnað er,“ sagði Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara við opnunina. Ásta lagði áherslu á að opnunin væri tilraunaverkefni og mikilvægt væri að meta áhrifin af því að færa þjónustuna nær þeim sem þurfa á henni að halda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fordæmalausar aðstæður á Reykjanesskaga urðu til þess að ákveðið var að opna útibú í húsnæði sýslumannsins í Keflavík, en um einn af hverjum tíu sem leitað hafa til umboðsmanns skuldara eru búsettir á Suðurnesjum. "Það hefur sýnt sig að það skilar sér betur að teygja sig til fólksins. Í því er mikilvægt að sýna þeim sem til okkar leita virðingu og veita aðstoð á erfiðum tímum þar sem við munum upplýsa fólk í vanda um þær lausnir sem eru í boði,“ sagði Ásta jafnframt.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður kjördæmissins hélt stutta tölu fyrir hönd þingmanna og sagði opnunina vera myndarlegt og þakklátt framtak. Þau úrræði sem nú hafi verið kynnt eigi að ná til allra sem eiga í skuldavanda og koma fólki úr honum. Þá sagði Björgvin að það væri mikilvægt „að gera starfsemi sem þessa ekki eins brýna með því að koma bæði atvinnu og tekjustigi upp á svæðinu“.

Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík á miklar þakkir skildar fyrir að taka vel á móti umboðsmanni skuldara og veita aðstöðu í húsnæði sýslumannsins, segir í frétt frá Umboðsmanni skuldara. Þórólfur rifjaði það upp að hugmyndin um að opna útibú hafi kviknað í lok september, en allir hafi lagst á árarnar með verkefninu. 55 uppboðsmál hjá sýslumanninum í Keflavík hafa nú fengið stöðuna „greiðsluaðlögun“ sem þýðir að uppboð fer ekki fram á þeim eignum og sagði Þórólfur það mikilvægt að hægt sé að forða uppboðum og koma málefnum skuldara í annan farveg.

Hefðbundin starfsemi umboðsmanns skuldara í Reykjanesbæ hófst í dag, föstudag, kl. 8.30. Hægt er að panta tíma í síma 512 6600 eða í grænu númeri embættisins 800 6600.

VF-Myndir/siggijóns

Mynd - Ásta Björk Eiríksdóttir og Guðni Jósep Einarsson eru fastráðnir starfsmenn í nýja útibúinu.

Sandgerðingarnir Magnús Sigfús Magnússon og Ólafur Þór Ólafsson.

Þórólfur Halldórsson sýslumaður í Reykjanesbæ.

Ásta S. Helgadóttir umboðsmaður skuldara skar tertuna sem gestir gæddu sér á.