Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Einn aðili tilbúinn að greiða 470 milljónir fyrir sérleyfi í rútuakstri á Suðurnesjum
Föstudagur 16. september 2005 kl. 01:32

Einn aðili tilbúinn að greiða 470 milljónir fyrir sérleyfi í rútuakstri á Suðurnesjum

Það er eftirsóknarvert að aka farþegum í fólksflutningabílum á milli Suðurnesja og Reykjavíkur og á öðrum sérleiðum innan Suðurnesja. Í dag voru opnuð útboð hjá Vegagerðinni í sérleyfi á fjórum akstursleiðum á Reykjanesi. Sex fyrirtæki skiluðu inn tilboðum í sérleyfin sem gilda næstu þrjú árin. Vegagerðin býður út sérleyfisakstur og gerir ráð fyrir að greiða fyrirtækum sem sækjast eftir sérleyfum meðgjöf með akstrinum, þar sem farþegafjöldi myndi annars ekki standa undir kostnaði við ferðirnar. Þessu er greinilega öðruvísi farið á Suðurnesjum, því einn tilboðsgjafinn er tilbúinn að greiða Vegagerðinni 470 milljónir króna fyrir einkaleyfið. Sá sem bauð lægst, samkvæmt skilgreiningu Vegagerðarinnar, var tilbúinn að vinna verkið fyrir núll krónur, þ.e. að þiggja ekki meðgjöf með verkinu. Aðrir voru hins vegar tilbúnir að opna budduna og borga Vegagerðinni fyrir sérleyfið. Vegagerðin gerði hins vegar ráð fyrir að greiða 1,3 milljónir með sérleyfisakstri á Suðurnesjum.

Árið 2004 voru fluttir 226.000 farþegar í 90.700 ferðum milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar. Í útboðsgögnum er gert ráð fyrir að hámarks fargjald milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar verði 1.144 krónur en það er lækkun um 6 krónur miðað við það sem nú er. Tekjur af fargjöldum, miðað við sama farþegafjölda og árið 2004 gera því 260 milljónir á ári. Gera má ráð fyrir auknum fjölda farþega næstu 3 ár en einnig verður að taka til greina rekstrarkostnað fyrirtækisins sem veitir þjónustuna. Miðað við sama farþegafjölda er sala fargjalda að skila 780 milljónum króna, þannig að aðilinn sem er tilbúinn að greiða Vegagerðinni 480 milljónir króna fyrir leyfið heldur eftir 103 milljónum króna á ári til að standa undir kostnaði við aksturinn, m.v. sama farþegafjölda.

Á Reykjanesi var óskað eftir tilboðum í akstur á eftirtöldum leiðum. Tilboðsgjafi varð að bjóða í allar leiðirnar:
Reykjavík - Leifsstöð: Sérleyfishafi er skuldbundinn til að fara í Leifsstöð fyrir hverja brottför áætlunarflugvéla og til Reykjavíkur eftir hverja komu áætlunarflugvéla.
Reykjavík - Vogar - Reykjanesbær: 31 ferð í viku.
Reykjanesbær - Sandgerði - Garður: 12 ferðir í viku.
Reykjavík - Grindavík: 14 ferðir í viku.

Sérleyfi eða einkaleyfi til fólksflutninga á ákveðnum þjónustusvæðum eiga stoð í lögum um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi sem samþykkt voru árið 2001. Í greinargerð með lögunum segir að sérleyfi séu veitt enda sé það hagkvæmt og almenningssamgöngum til framdráttar. Um geti verið að ræða leiðir í fámennum héruðum sem ekki yrði annars þjónað. Ljóst er að það á ekki við í þessu tilviki.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024