Einkunnir úr grunnskóla skipta máli þegar komið er í framhaldsskóla
Um þessar mundir er að hefjast síðasta önn 10. bekkjar og næsta haust hefja margir nemendur nám í framhaldsskólum. Elín Rut Ólafsdóttir námsráðgjafi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja segir í viðtali við Víkurfréttir að foreldrar, kennarar og námsráðgjafar í skólum geti aðstoðað nemendur við val á samræmdum prófum. Mikilvægt sé að upplýsa nemendur um það sem tekur við að grunnskóla loknum og finna út hvar áhugi einstakra nemenda liggur.
Skipta einkunnir grunnskólanema sem eru að ljúka námi máli þegar þeir sækja um inngöngu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja eða aðra framhaldsskóla?
Já einkunnir skipta máli við inngöngu í FS eins og í alla aðra framhaldsskóla.
Hvernig eru nemendur metnir inn í FS?
Nemendur eru teknir inn í skólann samkvæmt ákveðnum reglum sem koma frá Menntamálaráðuneyti og gilda fyrir alla framhaldsskóla í landinu.
Skipta einkunnir máli ef nemandi hefur hug á að komast á ákveðna námsbraut í FS?
Já í þessum reglum sem gilda um inntöku nýnema í framhaldsskóla kemur m.a. fram að allir nemendur hafa rétt á skólavist í framhaldsskóla en það eru inntökuskilyrði inn á allar brautir nema almenna braut.
Verknáms og starfsnámsbrautir
Samræmt próf í íslensku og stærðfræði eru inntökuskilyrði á verknáms og starfsnámsbrautir. Þar þurfa nemendur að fá a.m.k. 5 í meðaltal samræmdrar einkunnar og skólaeinkunnar og lágmark á samræmdum prófum í þessum greinum má ekki fara undir 4,5.
Stúdentsbrautir
Varðandi stúdentsbrautir sem eru þrjár í dag þá eru mismunandi inntökuskilyrði inn á þær. Íslenska er krafa inn á allar brautir með meðaltal samræmdrar einkunnar og skólaeinkunnar 6 og lágmark á samræmdu prófi 5. Stærðfræðin er einnig skilyrði inn á allar brautir en meðaltal samræmdrar einkunnar og skólaeinkunnar má ekki vera undir 6 á náttúrufræðibraut og lágmark á samræmdu prófi má ekki vera undir 5. Á félagsfræðibraut og málabraut er gerð krafa um 5 í meðaltal samræmdrar einkunnar og skólaeinkunnar á báðum brautum og lágmark á samræmdu prófi 4,5. Eingöngu er gerð krafa um samræmt próf í dönsku á málabraut og er þá miðað við 6 í meðaltal og 5 sem lágmark á samræmdu prófi. Þar sem danska er skyldugrein á hinum stúdentsbrautunum og í iðnnámi þá mælum við með að þeir sem verið hafa í dönsku í grunnskóla og hafa tök á að taka samræmda prófið í henni ættu endilega að gera það. Á náttúrufræðibraut er krafa um samræmt próf í náttúrufræði með 6 í meðaltal samræmdrar einkunnar og skólaeinkunnar og lágmark á samræmdu prófi 5. Á félagsfræðibraut er krafa um samræmt próf í samfélagsfræði og þar eru einnig einkunnirnar 6 í meðaltal og 5 sem einkunn á samræmdu prófi.
Almenn braut
Almenna brautin skiptist í tvennt þ.e. almenn braut bóknám og almenn braut fornám. Inn á almenna braut bóknám fara nemendur sem hafa fallið í 1-2 greinum á samræmdum prófum. Á almenna braut fornám fara nemendur sem hafa fallið í 3 greinum eða fleiri eða hafa ekki tekið samræmd próf.
Með hvaða hætti geta foreldrar og grunnskólinn aðstoðað barnið í vali sínu á námi?
Foreldrar, kennarar og námsráðgjafar í skólum geta aðstoðað nemendur við val á samræmdum prófum. Mikilvægt er upplýsa nemendur um það sem tekur við að grunnskóla loknum og finna út hvar áhugi einstakra nemenda liggur. Eins og við vitum þá erum við öll ólík með mismunandi þarfir og áhugasvið. Mikilvægt er að fólk sé raunsætt við val á samræmdum prófum og skoði hvað sé best fyrir viðkomandi einstakling þegar til lengri tíma er litið. Með því að taka öll prófin þá eru allar leiðir opnar og eftir því sem prófunum fækkar þá takmarkast valið. Afar mikilvægt er að foreldrar fylgist vel með skólagöngu barna sinna og temji sér jákvætt hugarfar gagnvart skólanum og námi barna sinna. Mikilvægi hvatningar frá foreldurm minnkar ekki þó nemendur eldist! Í lokin langar mig að benda á heimasíðuna okkar fss.is en þar er meðal annars að finna góða og lýsandi töflu um inntökuskilyrði í framhaldsskóla.
VF-ljósmynd/JKK: Elín Rut Ólafsdóttir námsráðgjafi Fjölbrautaskóla Suðurnesja.