„Einkaframtakið hefur tekið völdin“
- ríkið seldi þúsundir af eignum á Ásbrú til fjárfesta án þess að ræða við Reykjanesbæ
Um 2000 manns hafa flutt til Reykjanesbæjar á síðustu 18 mánuðum. Fjárfestar sem keyptu eignir af KADECO á Ásbrú hafa ákveðið að selja eignir í stað þess að leigja eignir. „Þetta tvennt hefur mikil áhrif á framboð leiguhúsnæðis hér í bæ,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, í athugasemd sem hann skrifar við fésbókarfærslu Ísaks Ernis Kristinssonar. Ísak hefur óskað eftir fundi í velferðarráði Reykjanesbæjar til að ræða húsnæðisvanda og málefni hælisleitenda í Reykjanesbæ.
„Auk þess hefur Airbnb m.a. skekkt leigumarkaðinn verulega, hækkað leiguverð umtalsvert og um leið minnkað framboð á húsnæði. Ekkert sveitarfélag hefur möguleika á að hafa til reiðu húsnæði þegar svona hlutir gerast,“ segir Friðjón og bætir við:
„Hér hefur einkaframtakið tekið völdin og í kjölfarið vantar leiguhúsnæði á markaðinn. Bæjaryfirvöld hafa verið í sambandi við ráðherra íbúðamála, fjármálaráðherra og þingmenn vegna þessa. Enginn situr með hendur í skauti. Reykjanesbær styrkir einstaklinga með leigukostnað og fyrirframgreiðslur og aðstoðar með leit að húsnæði. Yfirvöld eru að vinna í lausnum en meðan ríkið seldi þúsundir af eignum á Ásbrú til fjárfesta án þess að ræða við Reykjanesbæ, þá getur sveitarfélagið lítið gert. Þetta hefur með pólitík að gera, sjálfstæðismenn áttu formann stjórnar Kadeco og fjármálaráðherra þegar þetta var gert. Ekki króna er skilin eftir hér í bæ, því miður,“ segir Friðjón Einarsson í færslu sinni við innlegg Ísaks Ernis.