Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Einhamar Seafood aftur í gang eftir síðasta eldgos
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 4. júní 2024 kl. 11:00

Einhamar Seafood aftur í gang eftir síðasta eldgos

„Það er bræla út um allt land en hægt að róa héðan og þess vegna erum við með löndun og vinnslu í dag,“ segir Stefán Kristjánsson, eigandi og forstjóri Einhamar Seafood ehf. í Grindavík. 

Stefán var staddur í Grindavík þegar síðustu jarðhræringar áttu sér stað og yfirgaf bæinn seinni partinn þegar hann var búinn að huga að sauðfé sínu.

„Við fengum að klára vinnudaginn og allt var unnið í samvinnu við yfirvöld, við komum daginn eftir til að ganga frá afla svo þetta er allt annað í dag en fyrr í vetur. Nú var Grindvíkingum hleypt heim til sín tveimur sólarhringum eftir að eldgos hófst, sem er bara frábært.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við erum með Véstein GK ennþá hér í Grindavík en ég geri ráð fyrir að hann fari austur um miðjan mánuðinn. Vertíðinni hér fyrir sunnan er lokið en veiðin fyrir austan hefur verið fín en fiskurinn er áfram unninn hér í Grindavík. Þetta voru um 3,5 tonn sem komu á land í morgun, við verðum ekki lengi að flaka aflann, pakka honum og koma í flug og má búast við að þessi fiskur verði kominn á disk kúnnans á morgun.

Ég er bjartsýnn á framhaldið. Varnargarðarnir eru heldur betur að sanna gildi sitt og nú er bara að laga veginn að Grindavík og ég myndi vilja fara sjá bæinn opnast á ný, við verðum að fara fá ferðamennina inn í bæinn svo veitingaþjónusta t.d. geti þrifist. Svo myndi ég auðvitað vilja sjá framkvæmdir fara hefjast inni í bænum, það eru nokkrar götur sem ekki má keyra yfir, nú þarf bara að kanna það betur, fylla upp í og yfir höfuð að gera bæinn öruggan til búsetu. Gamli skólinn er því sem næst óskemmdur, ég sé ekkert því til fyrirstöðu að skóla- og leikskólahald geti hafist þar í haust en það þarf auðvitað að taka ákvörðun um það. Ég bind miklar vonir við nýju framkvæmdanefndina og hef á tilfinningunni að góðir hlutir séu að fara gerast í Grindavík,“ sagði Stefán.