Eindreginn vilji stjórnvalda að gagnaver byggist upp hér á landi
Stjórnvöld munu koma til móts við ábendingar aðila í gagnaversiðnaðinum og tryggja að Ísland standi fullkomlega jafnfætis samkeppnisaðilum innan ESB enda eindreginn vilji stjórnvalda að gagnaver byggist upp hér á landi. Þetta eru meginskilaboðin í bréfi Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, til stjórnar Samtaka gagnaversfyrirtækja, segir í fréttatilkynningu á vef iðnaðarráðuneytisins.
„Unnið hefur verið að útfærslu lausna á tveimur þáttum sem varða virðisaukaskatt á þjónustu gagnavera. Annars vegar er um að ræða innheimtu virðisaukaskatts af búnaði sem viðskiptavinir innan ESB eiga sjálfir en senda til þjónustu í gagnaverum í öðrum löndum. Hins vegar er um að ræða innheimtu virðisaukaskatts af seldri þjónustu gagnavera til erlendra viðskiptavina. Samtök gagnaverafyrirtækja hafa bent á að jafnstaða íslenskra gagnavera gagnvart keppinautum innan ESB sé forsenda frekari uppbyggingar gagnaveraiðnaðar hér á landi. Í samræmi við áherslu íslenskra stjórnvalda á að skapa hátæknistörf, ýta undir græna hagkerfið og auka fjölbreytni í orkunýtingu hér landi hefur verið unnið að því að koma til móts við óskir gagnaveraiðnaðarins. Útfærslu á að ljúka á næstu dögum svo gildistaka breyttra reglna geti orðið sem fyrst,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Sem kunnugt er hafa íslenskt stjórnvöld setið undir gagnrýni fyrir að hafa ekki fyrr leyst þau tæknilegu vandamál sem tengast virðisaukaskatti. Greint var frá því í fjölmiðlum að sökum þessa væri m.a. IBM hætt við að koma með verkefni inn í gagnaver Verne Holding á Ásbrú.