Einbýlishús í Garði brann og slökkviliðsmaður slasaðist
Sextán slökkviliðsmenn börðust í dag við eld í einbýlishúsi í Garði. Tilkynnt var um eldinn til Neyðarlínunnar kl. 16:37 í dag. Tilkynnt var um að mikinn svartan reyk frá íbúðarhúsi í miðri byggðinni í Garði. Slökkvibifreið, sjúkrabíll og lögregla voru þegar send á staðinn.
Þegar slökkvilið kom á staðinn var mikill hiti í húsinu. Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að ljóst væri að þarna hafi eldur náð að loga lengi áður en hans varð vart. Það voru nágrannar sem tilkynntu um eldinn en húsráðendur eru erlendis.
Baráttan við eldinn var erfið en hvass vindur hefur áhrif á slökkvistarfið.
Einn slökkviliðsmaður slasaðist við slökkvistörf og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Að sögn Jóns slökkviliðsstjóra skarst slökkviliðsmaðurinn á gleri við slökkvistörf.
Þegar Víkurfréttir tóku Jón tali nú á sjöunda tímanum í kvöld var slökkvistarfinu að ljúka. Þegar mest var voru þrír dælubílar á vettvangi brunans auk sjúkrabíla og lögreglu.
Mjög annríkt hefur verið hjá Brunavörnum Suðurnesja í dag og frá því stórt útkall kom á slökkviliðið síðdegis hefur fjöldi útkalla þar sem óskað er sjúkraflutninga einnig borist. Fimm slík útköll voru á bið nú á sjöunda tímanum.