Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Einar sækist eftir 4. sæti
Þriðjudagur 28. janúar 2014 kl. 15:30

Einar sækist eftir 4. sæti

- í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ.

Einar Þórarinn Magnússon bæjarfulltrúi og útvegsbóndi gefur kost á sér í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ þann 1. mars næstkomandi.

„Ég hef verið bæjarfulltrúi frá árinu 2010 og er formaður atvinnu- og hafnaráðs. Ég er giftur Bryndísi Sævarsdóttur og eigum við saman synina Sævar Magnús, Unnar Geir og Einar Svein. Við eigum og rekum útgerðarfyrirtæki sem gerir út rækjuveiðiskipið Magnús Geir KE-5. Við ræktum einnig bláskel út af Keflavík,  gerum út bát og erum með vinnslu í tengslum við það. Ég er skipstjóri að mennt og útskrifaðist úr Stýrimannaskóla Íslands árið 1984,“ segir Einar í tilkynningu til Víkurfrétta.

Þá segir hann: „Ég hef mikinn áhuga á að starfa áfram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og fylgja eftir þeim verkefnum sem ég hef tekið þátt í að vinna að.  Þar vega þungt nokkur stór atvinnuverkefni í Helguvík sem hafa verið í undirbúningi síðastliðin ár auk margra minni verkefna.  Mér er það mjög hugleikið að þau verkefni og tækifæri sem hér skapast haldist í heimabyggð og séu í forsjá okkar Suðurnesjamanna.

Ég bið um stuðning bæjarbúa til að fá að vinna áfram að því að gera góðan bæ betri.  Það eru spennandi tímar framundan í atvinnumálum í Reykjanesbæ og þar vil ég áfram leggja mitt af mörkum“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024