Einar G. Njálsson verður ekki áfram bæjarstjóri í Grindavík
Einar G. Njálsson bæjarstjóri Grindavíkur verður ekki áfram sem bæjarstjóri þar í bæ á næsta kjörtímabili. Einar staðfesti þetta í samtali við Víkurfréttir í dag. Sem kunnugt er hefur nýr meirihluti myndast í bæjarstjórn Grindavíkur milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar og verður það í höndum Sjálfstæðismanna að ráða nýjan bæjarstjóra. Einar G. Njálsson sagði að meirihlutaflokkarnir hefðu tilkynnt sér það að hann yrði ekki áfram bæjarstjóri.Einar sagðist ekki vita hvað tæki við hjá sér eftir 8 ára setu í bæjarstjórn, en hann sagðist vera að hugsa sinn gang. Ómar Jónsson oddviti Sjálfstæðismanna sagði í samtali við Víkurfréttir nú undir kvöld að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um næsta bæjarstjóra Grindavíkur, en þau mál eru öll í vinnslu. Ómar sagði að nokkur nöfn hafi komið upp en ekkert af því hafi gengið upp. Ekki er vitað hvenar Sjálfstæðismenn finni nýjan bæjarstjóra, en Ómar sagði að ekki yrði auglýst eftir slíkum eins og gert hefur verið í öðrum sveitarfélögum.