Einar ekki með þingmann í maganum
„Það kemur fram á vefnum í dag hjá VF að ég gangi með þingmann í maganum og sé að kanna grundvöll minn fyrir því að bjóða mig fram. Þó ég sé vissulega með stórann maga, þá er það ekki útaf því að í honum sé þingmaður,“ segir Einar Bárðarson, eigandi Concert umboðsfyrirtækisins og fyrrverandi aðstoðarmaður Kjartans Ólafssonar, þingmanns í Suðurkjördæmi.
„Þetta kemur mér á óvart - Því ég hef EKKI kannað neitt - en hinsvegar hefur þessu verið haldið á lofti við mig síðan í haust, meira þó núna síðustu tvær vikurnar. Eina sem ég hef gert er hlustað og þó meira til þess að átta mig á stöðu mála hjá flokknum í kjördæminu. En ég hef ekki kannað neinn hljómgrunn að framboði af eigin frumkvæði.
Ég er að vinna með Kjartani Ólafssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins að hans prófkjöri og styð þingmanninn til forystu í kjördæminu. Ég er hlyntur kallinu á endurnýjun en ég held að það sé kjördæminu ekki til framdráttar að losa alla reynslu af listanum.“