Ein svipt og fimm kærðir
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði um helgina bifreið, sem ekið var með eftirtektarverðum hætti um götur í umdæminu. Ökumaðurinn, kona á fimmtugsaldri, var grunuð um ölvun við akstur og því færð á lögreglustöð. Þar sýndu sýnatökur það mikið áfengismagn í blóði hennar að hún var svipt ökuréttindum til bráðabirgða.
Þá voru fimm ökumenn til viðbótar kærðir fyrir of hraðan akstur. Þeir óku á allt frá 111 kílómetra hraða upp í 128 km. þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar.