Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ein stærsta bygging Suðurnesja verður rifin
Þriðjudagur 3. júlí 2012 kl. 12:26

Ein stærsta bygging Suðurnesja verður rifin

Ein stærsta bygging Suðurnesja, flugskýli 885 á Keflavíkurflugvelli, verður rifin finnist ekki hentug starfsemi í bygginguna. Þá liggur einnig fyrir að gamla flugstöðin á Keflavíkurflugvelli verður rifin. Þetta hefur verið samþykkt af stjórn Isavia.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Isavia, sagði í samtali við Víkurfréttir að nú sé verið að skoða hugmyndir um starfsemi í flugskýli 885. Frá því Varnarliðið yfirgaf Ísland árið 2006 hafi nokkur verkefni verið nefnd sem möguleg inn í bygginguna en þau séu annað hvort of stór eða of lítil fyrir húsið. Nú sé verið að kanna hvort í raun sé hægt að koma starfsemi í húsið eða rífa það ella. Flugskýli 885 er 17.200 fermetra bygging.

Það liggur fyrir að byggingin er dýr í rekstri og eins munu endurbætur á húsinu kosta mikla fjármuni. Friðþór segir að niðurrif hússins, ef af því verður, sé ekki svo dýrt sé tillit tekið til þess að þar falla til allt að 4500 tonn af stáli sem fara til endurvinnslu.

Önnur söguleg bygging, gamla flugstöðin á Keflavíkurflugvelli, verður rifin samkvæmt samþykkt stjórnar Isavia. Gamla flugstöðin stendur á einni verðmætustu lóð Keflavíkurflugvallar. Þar hafa komið upp hugmyndir um að byggja þjónustubyggingu fyrir einkaflugvélar en við gömlu flugstöðina er stórt flughlað á svokölluðu austursvæði Keflavíkurflugvallar.



Gamla flugstöðin á Keflavíkurflugvelli verður rifin. Einnig stendur til að rífa flugskýli 885 (efri myndin) ef ekki fæst hentug starfsemi í húsið. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson