Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ein milljón tonna af laxi árlega úr hrognum frá Vogum
Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics Iceland, og Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, í nýju hrognahúsi. VF-mynd: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 26. ágúst 2022 kl. 09:57

Ein milljón tonna af laxi árlega úr hrognum frá Vogum

Benchmark Genetics Iceland opnar nýtt og stærra hrognahús. Einstæðar aðstæður á Reykjanesi þar sem gnægð er 
af fersku vatni og sjó úr borholum.

Benchmark Genetics Iceland hf. (áður Stofnfiskur hf.) opnaði nýtt og stærra hrognahús sitt í Vogum á Reykjanesi á þriðjudaginn. Nýja húsið er tengt við eldra hrognahús og í stöðinni er einnig framleiddur lax til framleiðslu hrogna. 

Nýja hrognahúsið er 2.300 fermetrar og getur framleitt um það bil 300-400 milljón hrogn á ári sem dugar til framleiðslu á 1 milljón tonnum af eldislaxi. Sett í samhengi við matvælaframleiðslu verður þetta að 6,6 milljörðum matarskammta út um allan heim. Það er eins og að hver Íslendingur myndi fá 18.000 skammta af laxi á ári.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Laxeldi í heiminum er í örum vexti og er áætluð framleiðsla um 2,9 milljón tonn árið 2022 og spáð er að framleiðslan verði 4,2 milljón tonn árið 2032.

Benchmark Genetics selur laxa­hrogn til 28 landa sem þýðir að í öllum þessum löndum er framleiddur lax sem byrjaði líf sitt sem hrogn í Vogum á Íslandi.

Nýja hrognahúsið er með 10.000 hrognaker þar sem hægt er að framleiða hrogn allt árið um kring. Fyrirtækið er með sérstöðu í heiminum þar sem laxastofn fyrirtækisins er talin einn sá heilbrigðasti og það getur sent frá sér laxahrogn til viðskiptavina allt árið um kring. Fyrirtækið nýtir sér einstæðar aðstæður á Reykjanesi þar sem gnægð er af fersku vatni og sjó úr borholum.

Hjá Benhcmark starfa 86 starfsmenn á sex starfstöðvum sem eru fyrir utan Voga, í Kollafirði, í Kalmanstjörn, í Höfnum, og á skrifstofu í Hafnarfirði og rannsóknarstofu í Háskóla Íslands.

Velta Benchmark Genetics Iceland var um 4 milljarðar á síðasta ári og hagnaður þar af um 1 milljarður. Útflutningstekjur eru um 85% af veltunni.