Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ein í messu á jóladag
Mánudagur 28. desember 2015 kl. 14:45

Ein í messu á jóladag

Dræm aðsókn í Innri-Njarðvíkurkirkju

Fremur óvanaleg staða kom upp í messu á jóladag í Innri-Njarðvíkurkirkju þar sem einungis ein manneskja sótti athöfnina. Anna Meyvantsdóttir sem var eini gesturinn í messunni segir að þetta hefði verið falleg athöfn og synd að enginn skildi hafa lagt leið sína í kirkjuna til þess að hlusta á messu séra Baldurs Rafns sóknarprests. Auk Önnu var kórinn mættur ásamt presti, organista og meðhjálpara.

Messan hófst klukkan 11 á jóladagsmorgun en þá má gera ráð fyrir því að margir hafi verið í rólegheitunum heimavið. Séra Baldur Rafn segir að þetta sé að verða staðan í þessari fyrstu messu á jóladegi, fólk sé einfaldlega ekki komið á ról á þessum tíma. Hann segir að hugsanlega megi skoða það að breyta tímasetningu á þessari messu en Baldur stýrir jafnan nokkrum athöfnum á jóladag í sinni sókn. Hann segir að í áraraðir hafi stór fjölskylda mætt til messu í Innri-Njarðvík en eftir að þau hafi flutt burtu hafi aðsóknin verið dræm. Hann var annars sáttur við kirkjusókn yfir hátíðarnar sem hann sagði vera með svipuðu móti og undanfarin ár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024