„Eigum að standa saman, sama í hvaða flokki við erum“
„Aðalmálið hér á Suðurnesjum, sem og annarstaðar á landinu, er baráttan við atvinnuleysið. Það er bölið. Það þarf að huga að alvarlegum aukaverkunum atvinnuleysis. Það þarf að huga vel að börnum sem að alast upp við atvinnuleysi foreldra. Það verður að grípa inn í þetta ástand,“ segir Oddný Harðardóttir, þingmaður Suðurkjördæmis og nýkjörinn formaður þingflokks Samfylkingarnar í viðtali við Víkurfréttir í dag.
„Það er sérstakt áhyggjuefni hve margir í yngri kantinum hér eru án atvinnu. Það eru starfandi tveir aðilar á vegum menntamálaráðuneytisins til þess að hlúa að menntamálum hér á svæðinu en þau eru ráðin til tveggja ára til að vinna að þeim markmiðum að Suðurnesin standi jafnfætis öðrum þegar kemur að menntunarstiginu. Skólasókn hér á svæðinu er lakari en annarsstaðar en of margir ungir Suðurnesjamenn eru hvergi í skóla, ekki bara að þeir séu ekki í Fjölbrautaskólanum okkar, heldur eru þessir nemendur ekki að skila sér í framhaldsskóla yfir höfuð.“
Oddný segir menn hafi haldið að skýringarnar væru helst þær að aðgengi að atvinnu á meðan herinn var hér hafi verið svo gott. „Síðan fer herinn árið 2006 og þá er auðvitað öll þessi þensla og næga atvinnu að hafa. Atvinnuleysi hér á svæðinu byrjar svo snemma árið 2008 og heldur síðan áfram, en skólasóknin eykst ekki. Þannig að þessi skýring sem við töldum að væri orsökin, sem sagt gott aðgengi að atvinnu sem krafðist ekki mikillar menntunar átti ekki lengur við.“
Sjálfstæðismenn vilja ekkert með þessa ríkisstjórn hafa
Hvað gerir þingmaður Suðurnesjamanna til að vera í sem bestu sambandi við íbúana?
„Ég nýti kjördæmadagana vel og sem formaður fjárlaganefndar þá er ég mikið í sambandi við fólk í gegnum það starf. Ég legg mig líka fram við að fara í heimsóknir svo sem til sveitarfélaga og stofnana ef ég hef stund aflögu.
Oddný segist vera í góðu sambandi við ráðamenn á Suðurnesjum og að sumir bæjarstjórar leiti til hennar. „Ég hringi auðvitað í fólk og er t.d. í fínu sambandi við bæjarstjórann í Grindavík og í Sandgerði og í ágætu sambandi við bæjarstjórann í Vogum. Auðvitað litar það samskipti mín við bæjarstjórann í Garði, þar sem ég bý, hvernig hann hagar sér, ef ég get sagt sem svo. Hans grímulausa andstaða og áróður gegn mér og ríkisstjórninni auðveldar ekki samskiptin. En ég er í góðu sambandi við bæjarfulltrúa minnihlutans í Garði og fylgist vel með bæjarmálunum. Árni Sigfússon hefur aldrei hringt í mig af fyrra bragði en ég hef hringt í hann, bæði til að ræða atvinnumál og málefni Keilis þar sem hann er stjórnarformaður.
Mér finnst það svolítið merkilegt, verandi með þingmann í lykilstöðu að bæjarstjórarnir í Garði og Reykjanesbæ leiti ekki meira til manns. Ég held að þar að baki búi bara „pjúra“ pólitík. Þeir eru bara sjálfstæðismenn og vilja ekkert með þessa ríkisstjórn hafa og helst vilja þeir ekki eiga Suðurnesjaþingmann úr þessum flokki sem ég tilheyri. Þetta blasir við í greinaskrifum og öðru. Þetta þykir mér slæmt því auðvitað eigum við að standa saman og vinna í því saman að koma okkur út úr þessari kreppu hvar í flokki sem við stöndum.“
Nánara viðtal við Oddnýju má lesa í nýjasta blaði Víkurfrétta sem kom út í dag.