Eigið fé lækkar um rúmlega 700 milljónir
Gerðar hafa verið breytingar á ársreikningi sveitarfélagsins Voga sem kom til fyrri umræðu þann 23. mars. Breytingarnar hafa áhrif á efnahagsreikning sveitarfélagsins um síðustu áramót þannig að eigið fé lækkar um 606 milljónir til viðbótar áður samþykktri lækkun upp á rúmlega 100 milljónir króna.
Breytingarnar koma til vegna þess að lóðarleigusamningar og réttindi sveitarfélagsins samkvæmt fasteignaleigusamningum við Eignarhaldsfélagið Fasteign og Búmenn eru færð til eignar meðan skuldbindingar vegna sömu fasteignaleigusamninga eru færðar til skulda. Eigið fé lækkar um 606 milljóna króna vegna þessa og bætist við rúmlega 100 milljóna áður samþykkta lækkun á eigin fé til að leiðrétta eignarhluti í samstarfsverkefnum á Suðurnesjum og afskrifta á skuld hafnarsjóðs við aðalsjóð.
Eigið fé sveitarfélagsins verður eftir breytingarnar jákvætt um 879,5 milljónir króna
Ársreikningurinn verður tekinn til fyrri umræðu þann 6. maí næstkomandi og seinni umræðu 27. maí.