Eigendum Guðrúnar stefnt til fundar við norsk yfirvöld
Fulltrúar norsku strandgæslunnar hafa boðað fulltrúa útgerðarfélagsins Festi hf., Íshúss Njarðvíkur og GGKE15-Group til fundar í Osló á mánudaginn kemur. Henry Bertheussen hjá norsku strandgæslunni segir í samtali við fréttavef Morgunblaðsins að liggi engar trúverðugar áætlanir fyrir hjá íslensku aðilunum um björgun skipsins, þá muni norsk stjórnvöld taka yfir aðgerðir og ná skipinu upp á kostnað eigenda. Einnig segir Bertheussen að fulltrúar Seløy Undervannsservice hafi staðfest að fyrirtækið sé hætt aðgerðum á strandstað en að þeir hafi ekki enn fjarlægt búnað sinn við skipið. Þeir muni hefjast handa á nýjan leik fái þeir greitt upp í kostnað frá íslenskum eigendum skipsins. Bertheussen segir að tilgangur fundarins í Osló sé að fá skýrslu um stöðu málsins og hvers vegna Guðrúnu hafi ekki enn verið náð upp af hafsbotni.