Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Eigendaskipti hjá Rafþjónustunni
Mánudagur 17. janúar 2005 kl. 16:36

Eigendaskipti hjá Rafþjónustunni

Umskipti eru framundan hjá Þorsteini Sigurðssyni, sem hefur rekið Rafþjónustu Þorsteins að Iðavöllum um 20 ára skeið. Hann hefur sagt skilið við rafvirkjunina og Arnar Stefánsson tekið við rekstrinum sem mun héðan í frá ganga undir nafninu Rafpóll.

Arnar er ekki ókunnugur rekstrinum því hann hefur unnið hjá Þorsteini síðustu 9 ár og veit að hverju hann gengur. „Þetta er náttúrulega mikil áskorun,“ sagði Arnar í samtali við Víkurfréttir. „En ég er fullur tilhlökkunar á að takast á við hana og er bjartsýnn með framhaldið.“

Félagarnir segja samkeppnina vera nokkra á rafverktakamarkaðnum en nóg sé þó að gera á meðan verið er að byggja svo ört.

Þorsteinn vill koma á framfæri þakklæti til viðskiptavina sinna í gegnum árin og vonar að þeir skipti áfram við Rafpól. „Það verður tekið vel á móti þeim sem og nýjum,“ bætir Arnar við.

Þorsteinn kveður nú rafvirkjabransann eftir 20 ár eins og áður sagði og snýr sér að ferðamannaþjónustu. Hann og kona hans, Sigríður Snorradóttir, hafa rekið ferðamannamiðstöðina í Húsafelli undanfarin tvö sumur og hyggjast nú snúa sér að rekstrinum þar af fullum krafti.
„Ferðamannatímabilið er alltaf að lengjast og núna eru það bara þrír mánuðir á ári sem eru dauðir, nóvember, desember og janúar. Þetta er orðið fullt starf hjá okkur enda erum við með verslun, veitingasal, tjaldstæði, litlu sumarhúsin sem og gamla bæinn. Við erum búin að stækka veitingasalinn og getum núna tekið á móti meira en 100 manns í sal.“
Þorsteinn segist una sér vel í Húsafelli. „Þetta er alveg frábært. Við búum bara þarna í okkar bústað í ótrúlegri veðurblíðu þannig að þetta verður ekki betra.“

VF-mynd/Þorgils Jónsson: Þorsteinn afhendir Arnari lyklavöldin að rafþjónustunni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024