Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eigandi hvolpsins fundinn
Sunnudagur 22. júní 2008 kl. 18:29

Eigandi hvolpsins fundinn



Lögreglan á Suðurnesjum er búin að finna eiganda hvolpsins sem fannst í hrauni við Kúagerði í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef lögreglu í dag en þar segir ennfremur að rannsókn málsins verði haldið áfram. Lögreglan fékk fjöldan allan af ábendingum og þakkar fyrir aðstoðina.
 
Sigurður Vignisson, íbúi í Vogum, gekk fram á tíkina sem er talin um fjögurra mánaða gömul, og sagði í samtali við Víkurfréttir að hún hafi verið afar máttfarin þegar hann kom að henni.
 
„Við vorum að ganga þarna með hundana okkar og erum komin einhverja 50-70 metra út í móa þegar við komum að urð þar sem virtist hafa verið hlaðið meðfram hæðarmismun.
 
Hundarnir mínir fóru að sýna hrúgunni áhuga og svo fóru að heyrast óhljóð úr hrúgunni. Þegar þeir komu ekki aftur fór ég og kannaði þetta, hélt kannski að þetta væri refur eða eitthvað slíkt. Svo þegar ég kom að sá ég hvar örlítið trýni stóð undan grjóthrúgunni og emjaði ógurlega.“
 
Sigurður sagði að fyrstu viðbrögð sín hafi verið að taka grjótið ofan af hvolpinum til að hann ætti auðveldara meðað anda, fór svo með sína hunda út í bíl og sneri svo aftur til að ná í hvolpinn, sem virðist vera Scaeffer/Dobermann-blendingur, og hringdi á lögreglu.
 
„Þegar hún var laus gat hún ekki staðið upp heldur valt á hliðina þannig að ég bar hana upp í bíl og lögreglan kom stuttu seinna og tók hana.“
 
Lögreglan flutti dýrið litla á dýraspítala í Reykjavík þar sem hún virðist dafna nokkuð vel. Var haft eftir dýralækni í fjölmiðlum að hún myndi sennilega ná sér aftur en hún hafi sennilega ekki legið í prísundinni í meira en einn sólarhring.

Mynd2: Sigurður við staðinn þar sem hundurinn fannst. - VF-mynd/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024