Eiga von á bakreikningi vegna útsvars
– Endanleg álagning útsvars birt 1. júlí nk.
Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, m.a. í auglýsingu í Víkurfréttum þann 26. feb. 2015, er útsvar í Reykjanesbæ hærra en annars staðar á landinu eða 15,05%. Þetta er vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og með sérstökum samningi við innanríkisráðherra er Reykjanesbæ veitt heimild til aukaálags á útsvar sem annars er að hámarki 14,52%.
Fjársýsla ríkisins, sem sér um að innheimta útsvar mánaðarlega af öllu launafólki, innheimtir hins vegar meðalútsvar allra sveitarfélaga á landi, sem nú er 14,44%, af öllum launþegum á Íslandi óháð búsetu. Síðan þegar endanleg álagning birtist þann 1. júlí í sumar verða gerðar leiðréttingar til hækkunar eða lækkunar eftir því sem útreikningar skattayfirvalda segja til um. Því má búast við að flestir launþegar búsettir í Reykjanesbæ fái bakreikning í sumar sem nemur rúmum 5 þúsund krónum í viðbótarútsvar fyrir hverja milljón krónur í tekjur.
Launþegi með 5 milljónir í heildartekjur gæti því átt von á bakreikningi uppá kr. 26 þús., launþegi með 10 milljónir kr. 53 þús. o.s.frv.
Í áætlunum Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir að útsvarið verði 15,05% út árið 2017 en stefnt að því að lækka það aftur í 14,52% þann 1. jan. 2018.