Eiga Grindvíkingar náttúruauðlindir í Krýsuvík?
Grindavíkurbær er hugsanlega eigandi að Seltúni í Krýsuvík ef grunsemdir Erlings Einarssonar í Grindavík reynast réttar. Hann hefur borið saman kortagögn sem að hans mati sýna skekkju landamerkja milli landareigna Hafnarfjarðarbæjar og Grindavíkur í Krýsuvík. Erling hefur í mörg ár bent á þessa skekkju án þess að bæjaryfirvöld hafi aðhafst eitthvað í málinu. Þetta kom fram á opnum íbúafundi um auðlindastefnu Grindavíkurbæjar um síðustu helgi.
Ef ábendingar Erlings eru réttar er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir Grindvíkinga vegna þeirra náttúruauðlinda sem kunna að felast í Seltúni en þar er jarðhiti.
Erling segir Hafnfirðinga hafa komist upp með að merkja inn landamerki eftir orðanna hljóðan í afsali þrátt fyrir að til sé fylgiskjal sem sýni annað. Engin hafi fylgt því eftir að leiðrétta þetta. Hann hefur allt frá árinu 1985 bent á þessa skekkju.
Erling bendir á ýmsar brotalamir á samningagerðinni á sínum tíma þegar Hafnarfjarðarbær eignaðist landið af Ríkinu sem tekið hafði það eignarnámi. Samkvæmt lögum megi til dæmis ekki skilja veiðirétt undan landi eins og gert var með veiðiréttinn í Kleifarvatni. Fyrrum bæjarstjóri í Hafnarfirði hafi á þeim tíma verið orðinn landbúnaðarráðherra og því setið beggja megin borðsins við samningagerðina.
Erling segir að á þeim gögnum sem hann hafi skoðað virðist sem hitasvæðið í Krýsuvík sé að miklum hluta Grindavíkurmegin. „Það er sjálfsagt heilmikið ferli að fara með þetta alla leið en alla vega vil ég að menn skoði þetta. Ég er búinn að biðja um það í 23 ár,“ segir Erling.
---
Ljósmynd/Ellert Grétarsson – Frá Seltúni í Krýsuvík.