Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eggvopnið millimetrum frá því að fara í hjarta barnsins
Sunnudagur 27. september 2009 kl. 17:58

Eggvopnið millimetrum frá því að fara í hjarta barnsins

Móðir fimm ára stúlkunnar sem var stungin á heimili sínu við Suðurgötu í Keflavík fyrr í dag kom barninu sjálf undir læknishendur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Læknar HSS bjuggu um áverka stúlkunnar sem síðan var flutt með forgangi á slysadeild Landsspítalans í Fossvogi.

Stúlkan er með stungusár á brjósti en eggvopnið var aðeins millimetrum frá því að fara í hjarta stúlkunnar. Bein í bringu barnsins varnaði því að eggvopnið færi í hjartað, samkvæmt heimildum Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt upplýsingum frá gjörgæslu Landsspítalans er barnið í stöðugu ástandi og verður undir eftirliti til morguns.

Lögregaln hefur handtekið 22 ára gamla konu vegna málsins. Hún mun, samkvæmt heimildum dv.is, hafa bankað uppá í húsinu við Suðurgötu í morgun, þar sem fimm ára barnið fór til dyra og var fyrirvaralaust stungið í brjóstið.

Víkurfréttir greindu frá því fyrstar fjölmiðla í dag að umsátursástand væri á Suðurgötu í Keflavík þar sem lögregla hafði girt af eitt íbúðarhús með gulum lögregluborða. Þegar ljósmyndara Víkurfrétta bar að voru rannsóknarlögreglumenn að störfum í húsinu. Lögreglan hefur varist frétta af málinu í dag, en gaf síðdegis út tilkynningu um handtöku 22 ára gamallar konu, sem grunuð er um verknaðinn gegn barninu.

Ljósmyndir frá vettvangi í dag. Einnig er myndband sem Víkurfréttir tóku á vettvangi um miðjan dag og sýnir vakt lögreglu við húsið á Suðurgötunni.


Myndataka: Hilmar Bragi Bárðarson