„Ég læt ekki stilla mér upp sem barnamorðingja“
- Segir upplýsinga-og skjalafulltrúa Grindavíkurbæjar hafa gengið of langt með ummælum sínum
Forseti bæjarstjórnar í Grindavík, Hjálmar Hallgrímsson fulltrúi D-lista, hefur farið fram á það við bæjarstjóra og formann bæjarráðs Grindavíkur að Siggeir Ævarsson, upplýsinga- og skjalafulltrúi bæjarins, sitji ekki framar fundi innan bæjarskrifstofunnar, þegar hann sjálfur, það er Hjálmar, er þar staddur.
Kröfuna setti hann fram eftir að Siggeir lét þau ummæli falla á Facebook-síðu sinni að fólk sem væri á móti því að taka á móti flóttafólki væri barnamorðingjar. Ummælin lét Siggeir falla í kjölfar þess að allir þrír fulltrúar D-lista í bæjarstjórn, þar á meðal Hjálmar, bókuðu að húsnæðisskortur kæmi í veg fyrir að hægt yrði að taka á móti flóttafólki í Grindavík. „Íbúi sýndi mér útprent þar sem Siggeir þrasar við bæjarbúa og kallar hann ítrekað barnamorðingja vegna afstöðu til flóttamanna. Ég vil ekki láta stilla mér upp sem barnamorðingja fyrir afstöðu til komu flóttafólks og finnst því ekki við hæfi að hann sitji fundi,“ segir Hjálmar.
Siggeir mun hafa setið fundi bæjarstjórnar sem starfsmaður bæjarins og haft umsjón með fjarskipta- og upptökubúnaði. „Ég ræddi málið við bæjarstjóra og formann bæjarráðs. Ég fór þess á leit við þau að hann yrði ekki í sama herbergi og ég og lagði fram gögnin. Þau játtu þessu svo ég geri ráð fyrir að hann verði ekki með okkur á fundum í framtíðinni,“ segir Hjálmar. Ekki náðist í Róbert Ragnarsson, bæjarstjóra Grindavíkur við vinnslu fréttarinnar.
Aðspurður hvort þessi krafa sé aðför að tjáningarfrelsi Siggeirs telur Hjálmar svo ekki vera. „Nei, það tel ég ekki. Fólki er velkomið að tjá sig en að setja fólk í sömu hillu og barnamorðngja fyrir afstöðu til móttöku flóttamanna, það er of langt gengið.“
Viltu að hann víkji sem upplýsinga- og skjalafulltrúi bæjarins? „Ég hef enga skoðun á því. Mér finnst ekki við hæfi að hann setji út þessi ummæli og sitji svo fundi bæjarstjórnar. Mér er alveg sama um skoðanir hans en læt ekki stilla mér upp sem barnamorðingja. Ég líð engum að segja svona. Ég er ekki að biðja um neitt annað og tel mig í fullum rétti. Hann verður að tjá sig innan siðferðislegra marka. Það er ekki í lagi að segja allt.“
Siggeir Ævarsson, upplýsinga- og skjalafulltrúi Grindavíkurbæjar, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.