Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 16. febrúar 2001 kl. 11:47

„Ég hélt að það hefði orðið flugslys“

Djúp lægð gekk yfir landið í nótt og í kjölfarið komu háværar þrumur og eldingar. Íbúar í Reykjanesbæ vöknuðu upp með andfælum við lætin og sumir héldu að flugslys hefði orðið í bænum. Þegar fólk fór að kanna afleiðingar óveðursins kom í ljós að stór hluti Reykjanesbæjar var símasambandslaus og fregnir herma að sjónvörp, tölvur og önnur rafmagnstæki sem voru í gangi þegar eldingunum laust niður, séu ónýt. Eitthvað hefur verið um fok og skemmdir af þeim völdum.

„Ég vaknaði við að eldingarnar í nótt en þriðja eldingin , sem var verst, kom kl. 4:20. Herbergið lýstist upp og mér sýndist hún fara í garðinn hjá mér. Þrumurnar voru svo háværar og skelfilegar að ég hélt að húsin væru að hrynja í kringum mig eða að það hefði orðið flugslys. Þetta var eins og sprenging“, sagði íbúi í Reykjanesbæ í samtali við VF. „Mér varð auðvitað ekki svefnsamt eftir þetta. Rafmagninu sló út í öllu húsinu. Ég prófaði að kveikja á tölvunni og hún er dauð, það er símasambandslaust í húsinu, sjónvarpið hjá nágrönnunum er farið en ég er ekki búin að prófa að kveikja á sjónvarpinu okkar og . Ég er ekki farin að fá viðgerðamenn þannig að ég veit ekki enn hversu alvarlegt þetta er.“
Fleiri vöknuðu upp skelfingu lostnir í nótt og vissu ekki hvað á sig stóð veðrið. „Ég vaknaði við að það var albjart í herberginu mínu og sekúndu síðar kom rosalegur hvellur sem var svona tíu sinnum kraftmeiri en bomburnar á gamlárskvöld. Hjartað á mér fór á fullt og ég var skíthrædd. Ég hljóp fram alveg í sjokki og mætti þar hinum fjölskyldumeðlimunum. Við stóðum öll frammi og biðum eftir að þetta væri búið. Ég sofnaði um klukkustund síðar þegar hjartslátturinn var aftur orðinn eðlilegur“, sagði ung stúlka í Njarðvíkunum þegar hún var beðin um að lýsa atburðum næturinnar.
Lögreglan fékk tvær tilkynningar um fok í nótt. Þakið á Fiskiðjunni í Njarðvík losnaði að hluta og vinkar nú framan í vegfarendur. Plata fauk af bíl við hafnarsvæðið í Sandgerði kl. 5 í nótt. Ekki var hægt að kanna skemmdir vegna veðurofsans.
Starfsmenn bilanaþjónustu Landsímans er nú í óða önn að koma símasambandi aftur á en víða er símasambandslaust á Suðurnesjum, aðallega í Reykjanesbæ. „Það er möguleiki að elding hafi farið í loftlínur og þess vegna hafi sambandið farið. Við erum að gera við og vonumst til að samband verði komið á fljótlega“, sagði starfsmaður Landsímans um kl. 10 í morgun.
„Það var rólegt hjá okkur í nótt“, sagði Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri BS. „Svo virðist sem eldingin hafi slegið út mörgum brunaviðvörunarkerfum en þau tengjast upphringikerfi símans sem gefur boð í móttökubúnað í vaktmiðstöð BS. Viðvörunarkerfi eru mjög viðkvæm fyrir spennubreytingum. Kerfin verða óvirk fram eftir degi og ég bið þá aðila sem hafa kerfi, að gefa þeim auga, hvort sem þau eru tengd til okkar eða inn í Reykjavík“, segir Sigmundur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024