„Ég hef haldið sakleysi mínu fram alveg frá byrjun“
Fannar Ólafsson körfuboltamaður verður ekki ákærður vegna ásakana ungrar stúlku um að hann hafi misnotað sig kynferðislega. Að sögn Brynjars Níelssonar lögmanns Fannars hefur rannsókn málsins verið felld niður og ljóst sé að ákæra verði ekki gefin út á hendur Fannari. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og var meðal annars forsíðufrétt DV.
Fannar Ólafsson sem staddur er í Grikklandi sagði í samtali við Víkurfréttir að þungu fargi væri af honum létt. „Ég hef haldið sakleysi mínu fram alveg frá byrjun og það er ofboðslegur léttir að málinu sé lokið. Það fór ákveðin rannsókn í gang hjá lögreglunni og niðurstaðan úr þeirri rannsókn varð sú að það væri ekki tilefni til ákæru því hlutirnir líta ekki út eins og sagt var í byrjun. Ef fólk hefði tekið því rólega frá byrjun, litið á málið og talað við viðkomandi þá hefði málið aldrei þurft að fara þessa leið. Það kom í ljós strax að málið liti ekki út eins og haldið var fram hjá þeim aðilum sem hófu málið,“ segir Fannar.
Spurður hvort hann telji að málið hafi skaðað mannorð sitt svarar hann. „Já, það er alveg á hreinu. Það er hrikalega erfitt að hafa svona yfir sér þegar maður veit að maður hefur ekki gert neitt. Ég fann það fyrstu dagana og mánuðina að fólk horfði öðruvísi á mig en það gerði áður. Í sumar fékk ég ekki þá vinnu sem mig langaði í því vinnuveitandinn sagði mér að það væri ekki hægt að ráða mig á meðan rannsóknin stæði yfir. Þetta mál hefur líka bitnað illilega á fjölskyldu minni en þau hafa staðið eins og klettur á bakvið mig,“ sagði Fannar í samtali við Víkurfréttir.
Í Tímariti Víkurfrétta sem kemur út á næstu dögum er ítarlegt viðtal við Fannar Ólafsson þar sem hann ræðir meðal annars um ásakanirnar og umfjöllun fjölmiðla um málið.
Myndin: Fannar fagnar með Keflavík í vetur.