Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 10. janúar 2003 kl. 16:39

"Ég bið menn um að vinna frekar í málunum heldur en að tala um þau"

- segir Árni Sigfússon bæjarstjóri í viðtali við Víkurfréttir

Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir að það dugi lítið að sitja æviráðnir á sínum skrifstofustólum, telja atvinnulausa og saka svo sveitarstjórnarmenn um að vera ekkert að gera, enda sé það fjarri sanni. "Ég bið menn um að vinna frekar í málunum heldur en að tala um þau. Við horfum til þess núna að það eru um 312 manns á atvinnuleysisskrá hér í Reykjanesbæ og það er 312 manns of mikið. Það er hreyfing á atvinnuleysisskránni, en mikilvægast er að skoða hvað margir eru á leiðinni inn í langtímaatvinnuleysi þar sem viðmiðunin er 6 mánuðir eða lengur. Það eru sem betur fer örfáir í þeirri stöðu ennþá og það staðfestir það að hreyfing sé á skránni. Hinsvegar er hættan sú að fleiri séu að fara inn í lantímaatvinnuleysi. Það er mjög mikilvægt að rjúfa þann vonleysismúr sem fer þá að myndast í huga þess sem er atvinnulaus."Árni segir að Reykjanesbær hafi verið gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2003 gert ráð fyrir ýmsum átaksverkefnum til að koma til móts við atvinnuleysið: "Reykjanesbær hefur komið inn með átaksverkefni og er að undirbúa þau, en það er eingöngu fyrir þann hóp sem getur verið kominn í erfiðari stöðu vegna langtíma atvinnuleysis.

Árni leggur áherslu á að framkvæmdaverkefni á vegum Reykjanesbæjar verða margfalt stærri en undir eðlilegum kringumstæðum. Áætlað er að framkvæma fyrir um 800 milljónir á þessu ári sem mun svara tímabundinni
niðursveiflu í atvinnumálum, og að auki verður framkvæmt fyrir mörg hundruð milljónir við uppbyggingu sorpeyðingarstöðvar í Helguvík" segir Árni og bætir við: "Það sem sveitarfélög geta gert í slíkri stöðu er að spýta í lófana, hraðað verkefnum og eins og menn sjá í fjárhagsáætlun okkar erum við þannig að mæta þyngra ári í atvinnulífinu með því að auka við framkvæmdir. Þær framkvæmdir stuðla að auknum þrótti í atvinnulífinu."

Árni segir ýmis merki uppi um að ástandið í atvinnumálum fari batnandi vegna verkefna sem koma á svæðið: "Ég vil nefna flokkunarstöðina og Fiskimjölsverksmiðjuna í Helguvík þar sem frysting og bræðsla er að hefjast. Framkvæmdir eru að hefjast við jöfnun lóðar fyrir Stálpípugerð og verulegar framkvæmdir á vegum bæjarins í byggingum, gatnagerð og umhverfisverkefnum eru á dagskrá. Tvöföldun Reykjanesbrautar hefst í dag og unnið er af kappi við uppbyggingu sorpbrennslustöðvarinnar. Einnig er álvinnsla að hefja starfsemi í Helguvík á árinu. Við sjáum einnig að flugsamgöngur og þjónusta eru að komast úr lægð og búist er við auknum fjölda flugfarþega, auk þess sem ný flugfélög tengjast starfsemi á Keflavíkurflugvelli, Iceland Express og Kanadíska flugfélagið HMY."

Árni segir að það hjálpi lítið að ræða atvinnumálin út frá flokkspólitík og hann segir að allir vilji bæta atvinnuástandið: "Ég nenni ekki að ræða við menn sem vilja gera flokkspólitík úr þessu. Við erum að vinna okkar verk hér og það er vissulega samstarfsverkefni á milli atvinnulífs og sveitarfélaga. Við erum að skapa hér grunn til þess að auka áhuga fólks á að koma hingað og bæta aðstæður í atvinnulífinu, en það er hinsvegar ekki gert á einum eða tveimur mánuðum og að þessum málum þarf að vinna af þolinmæði. En að framansögðu er ljóst að við sitjum ekki auðum höndum í að leggja okkar af mörkum með auknum framlögum til framkvæmda, aðstoð við langtímaatvinnulausa, leiðum til að laða ný fyrirtæki að og flýtingu verkefna sem fyrirtæki á svæðinu geta unnið fyrir okkur."

Árni er bjartsýnn á að atvinnuástandið lagist og segir það grundvallaratriði að nýta þá miklu möguleika sem svæðið bíður uppá: "Það sem við þurfum að einbeita okkur að á næstu misserum eins og við höfum verið að gera er að styrkja atvinnustarfsemi sem fyrir er á svæðinu og laða að nýja. Atvinnufyrirtækin byggja á arðsemiskröfum og reksturinn er í höndum þeirra en ekki sveitarfélagsins. Það sem við getum hins vegar gert er að stuðlað að aðstæðum sem stuðlar aftur að góðri arðsemi. Sem dæmi um slíkt erum við með góða alþjóðahöfn, alþjóðaflugvöll, góðar samgöngur, hentugt húsnæði og góðan innri markað, þ.e. íbúa svæðisins. Þetta svæði hefur gríðarlega mikla möguleika og það hefur verið unnið mjög skynsamlega að uppbyggingu þess á síðustu árum og því ætlum við að halda áfram," segir Árni að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024