„Ég batt vonir við þetta fyrirtæki“
- Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður, lýsir yfir áhyggjum af stöðu mála hjá United Silicon
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi og íbúi í Reykjanesbæ, lýsir yfir áhyggjum af stöðu mála hjá kísilverksmiðju United Silicon í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Þar segir hún að stöðugt berist fréttir af mengun og að laun starfsmanna samræmist ekki þeim væntingum sem bæjarbúar höfðu þegar fyrirtækið var að koma sér fyrir í Reykjanesbæ.
Hún segir þetta slæmar fréttir sem beri það með sér að forsvarsmenn United Silicon hafi ekki lagt metnað í að gera hlutina nægilega vel í sátt við samfélagið. Í aðsendri grein á vef Víkurfrétta í dag baðst Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, afsökunar á því að hafa á sínum tíma greitt götu fyrirtækisins.