Eftirlitsmyndavélar í Heiðarskólar leyfðar
Tölvunefnd hefur gefið vilyrði sitt fyrir uppsetningu eftirlitsmyndavéla í Heiðarskóla samkvæmt ósk Árnýjar Pálsdóttur skólastjóra. Myndavélar munu verða staðsettar á skólalóð, í sundlaug og á göngum skólans, á sal skólans og í matsal. Málið var rækilega kynnt fyrir nemendum og kennurum og bæði foreldra- og nemendaráð skólans hafa samþykkt uppsetningu eftirlitsmyndavéla fyrir sitt leyti. Byggingar- og hönnunarnefnd Heiðarskóla hefur því óskað eftir heimild til að kaupa og setja upp eftirlitskerfi.Í bréfi Tölvunefndar til skólastjóra kom fram að í gildandi lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, er ekki að finna sérákvæði um notkun myndavéla við söfnun persónuupplýsinga um fólk. Þó gilda ákveðnar reglur um notkun slíkra myndavéla og er uppsetning þeirra háð skilmálum. Þegar og ef til þess kemur að skoða þurfi myndefni af einhverjum ástæðum, þá verður það aðeins gert af skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra, hverfislögreglu og eftir atvikum því barni sem hlut á að máli og foreldrum þess. Öðrum verður með öllu óheimill aðgangur að myndefninu. Upptökur má aðeins geyma í þrjá sólarhringa nema nauðsynlegt sé að varðveita þær t.d. vegna rannsóknar á skemmdar- eða ofbeldisverkum. Einnig er það skilyrði sett að áberandi skilti verði sett upp og fólki þar með gert viðvart að vöktun fari fram.