Eftirlíking að skotvopni fannst við húsleit í Reykjanesbæ
Lögreglan fann eftirlíkingu skotvopns við húsleit í Reykjanesbæ í gærdag. Tveir karlmenn, annar á fertugsaldri en hinn tvítugur voru handteknir í þágu rannsóknarinnar en skotvopnið fannst á heimili annars þeirra.
Þessir tveir karlmenn tengjast báðir vélhjólaklúbbi í Reykjanesbæ, segir í frétt á vef lögreglunnar. Húsleit var einnig framkvæmd á öðrum stað í Reykjanesbæ í tengslum við þetta mál, þar sem m.a. var lagt hald á barefli og peningaskáp. Upphaf þessa máls má rekja til þess að annar mannanna sást með hið ætlaða skotvopn í eftirlitsmyndavél í miðborg Reykjavíkur.
Að aðgerðinni stóðu lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum auk lögreglumanna frá embætti ríkislögreglustjóra.