Eftirför endaði með útafakstri
Lögreglan á Suðurnesjum leitar nú ökumanns vélhjóls sem stakk lögreglu af í Sandgerði í gær. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Lögreglan var við eftirlit um miðjan dag í gær þegar hún sá til ferða manns á mótorkrosshjóli í ofsaakstri innanbæjar. Hugðist lögregla ná tali af ökumanninum en hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum hennar og jók hraðann.
Lögregla veitti manninum eftirför en missti stjórn á bíl sínum svo hann hafnaði utan vegar og er talsvert tjónaður. Engin slys urðu á fólki.
Ökumaðurinn hafði ekki gefið sig fram í gærkvöld en lögregla er með upptöku af atvikinu og mun rannsaka hver þarna var á ferð.