Efst í huga þakklæti til bæjarbúa
Sala á flugeldum á Suðurnesjum fyrir þessi áramót var svipuð og árið á undan. Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, sagði í samtali við Víkurfréttir í morgun að þar á bæ væru menn sáttir við stuðning bæjarbúa fyrir áramótin.
„Okkur er efst í huga þakklæti til bæjarbúa fyrir stuðning við björgunarsveitina. Við fundum hann mjög vel nú fyrir áramótin. Þrátt fyrir hækkanir á flugeldaverði þá erum við að halda okkar hlut,“ segir Kári Viðar.
Flugeldamarkaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes verður opnaður aftur á laugardag og sunnudag fyrir þá sem vilja kaupa flugelda fyrir þrettándann.