Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Efni frá United Silicon valda óþægindum
Föstudagur 7. júlí 2017 kl. 14:46

Efni frá United Silicon valda óþægindum

- virðist valda ertingu í augum og öndunarfærum

Sóttvarnalæknir hefur farið yfir upplýsingar frá læknum heilsugæslu Suðurnesja, fjölda ákveðinna sjúkdómsgreininga og sölu öndunarfæralyfja á Suðurnesjum. Einnig hefur hann farið yfir kvartanir frá íbúum í nágrenni verksmiðju United Silicon í Helguvík og þeim mæliniðurstöðum sem fyrir liggja.

Mat Sóttvarnalæknis á fyrirliggjandi upplýsingum um heilsufarsáhrif mengunar frá verksmiðjunni er að hún virðist valda vægri ertingu í augum og öndunarvegi hjá heilbrigðum einstaklingum sem eru mismikil milli einstaklinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einstaklingar með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma virðast þó oft á tíðum finna fyrir meiri einkennum og þá sérstaklega astmaeinkennum sem í mörgum tilfellum krefjast sérstakrar lyfjagjafar. Engin dæmi eru hins vegar um alvarleg heilsuspillandi áhrif.

Fyrrgreind einkenni geta stafað af anhýdríðum sem mælst hafa og/eða formaldehýð sem vísbendingar eru um að gæti verið í útblæstri verksmiðjunnar. Því er nauðsynlegt að fá frekari mælingar á þessum efnum til að meta betur hugsanleg heilsufarsáhrif mengunarinnar.   

Enn stendur ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. mars varðandi takmörkun á starfsemi United Sílikons þar sem kveðið er á um að framleiðsla verksmiðjunnar einskorðist við einn ljósbogaofn.

Þetta kemur fram í upplýsingum frá Einari Halldórssyni hjá Umhverfisstofnun.