Efnahagsáhrifa aukins atvinnuleysis gætir ekki strax
Efnahagsáhrifa aukins atvinnuleysis vegna COVID-19 gætir ekki strax í aukinni fjárhagsaðstoð sem fjölgar aðeins lítillega milli mánaða, segir í gögnum Neyðarstjórnar Reykjanesbæjar frá því í síðustu viku.
Velferðarsvið Reykjanesbæjar gerir ráð fyrir því að áhrifin komi fyrst fram í aukinni eftirspurn eftir ráðgjafaviðtölum um félagsleg réttindi og umsóknum frá atvinnuleitendum með stuttan uppsagnarfrest hjá atvinnurekanda sem eiga engan eða skertan bótarétt hjá Vinnumálastofnun og langtímaatvinnulausum sem eru að klára bótarétt sinn án þess að komast á vinnumarkað.
Aukning hefur verið á tilkynningum til barnaverndar í mars og apríl miðað við fyrstu mánuði ársins 2020 og aukið álag verið á bakvakt vegna barnaverndar og heimilisofbeldismála.